Stjórn fjölmiðla- og fjarskiptafélagsins Sýnar hefur ákveðið að taka framtíðar eignarhald og stefnu rekstrareiningarinnar Vefmiðla og útvarps til frekari skoðunar. „Í því felst meðal annars miðlun afmarkaðra fjárhagsupplýsinga til mögulegra fjárfesta,“ segir í tilkynningu Sýnar til Kauphallarinnar.

Fram kemur að félagið hafi ráðið fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka til ráðgjafar við umrædda vinnu, þar með talið til að annast samskipti í tengslum við vænta upplýsingamiðlun.

Viðskiptablaðið fjallaði í síðustu viku um fjölmiðlarekstur Sýnar. Heimildir blaðsins hermdu að fjárfestahópur sem Ari Edwald leiði hafi áhuga á að kaupa hlut í fjölmiðlarekstri félagsins.

Sýn tilkynnti í byrjun síðasta mánaðar að fjölmiðlaeignum félagsins hefði verið skipt upp í tvær rekstrareiningar, annars vegar Vefmiðla og útvarp og hins vegar Stöð 2.

Rekstrareiningin „Vefmiðlar og útvarp“ heldur utan um fjölmiðilinn Vísi og útvarpsstöðvarnar Bylgjuna, FM957 og X-ið. Auk þess verða Já.is og Bland.is, sem Sýn festi nýlega kaup á, innan nýju rekstrareiningarinnar.

Í fjárfestakynningu Sýnar við uppgjör þriðja fjórðungs sagðist félagið gera ráð fyrir að árleg velta nýju einingarinnar verði í kringum 3 milljarðar króna.

Sýn kynnti rekstrareininguna Vefmiðlar og útvarp við birtingu árshlutauppgjörs í byrjun síðasta mánðar. Mynd tekin úr fjárfestakynningu Sýnar.