Frum­varp Willum Þórs Þórs­sonar heil­brigðis­ráð­herra um bann við sölu á sígarettum með mentol­bragði eða öðru ein­kennandi bragði gekk til vel­ferðar­nefndar eftir aðra um­ræðu á Al­þingi í gær.

Frum­varpið er inn­leiðing á til­skipun Evrópu­sam­bandsins frá 2014 en gildis­taka hefur tafist meðal EFTA-ríkja vegna mála­ferla í Noregi og Liechtenstein.

Nú er þó komið að því að Ís­land renni þessari til­skipun í gegnum þingið og geri að lögum. Meiri­hluti vel­ferðar­nefndar fékk í gegn að seinka gildis­töku laganna um nokkur ár þar sem hér reykja til­tölu­lega fáir en mentólsígarettur eru með mikla markaðs­hlut­deild.

Frum­varpinu er ætlað að koma í veg fyrir reykingar ung­linga með því að banna ung­lingum sem og full­orðnum að kaupa mentólsígarettur.

„Þær ku geymast á­gæt­lega í frysti”

Hildur Sverris­dóttir, þing­flokks­for­maður Sjálf­stæðis­flokksins, sagði það vissu­lega verðugt mark­mið að reyna koma í veg fyrir reykingar hjá ung­mennum en frum­varpið væri ó­lík­legt til að ná því mark­miði.

„Þó að ég muni ekki styðja þetta mál, ef á­fram heldur sem horfir, þá styð ég þær breytingar sem hér hafa verið gerðar á málinu,“ sagði Hildur á Al­þingi í gær.

„EES er vissu­lega mikil­vægasta við­skipta­sam­band sem við eigum en það er þó ekki alveg full­komið og sá angi til­skipananna sem þetta mál byggir á er að mínu mati ó­rök­studdur og sýndar­lýð­heilsu­að­gerð þar sem það hefur ekkert að gera með til­gang frum­varpsins um að stemma stigu við tóbaks­notkun ung­menna, sem er frá­bært mark­mið,“ sagði Hildur og bætti við að mentól-sígarettur hafi þar af­skap­lega lítið vægi ef eitt­hvað.

„Mér þykir þetta því vont mál eða þessi angi málsins öllu heldur og um leið og ég biðst fyrir hönd Al­þingis af­sökunar gagn­vart vin­konum mínum í sauma­klúbbum landsins og allra Djamm-reykingar­manna langar mig að segja við þau: Hamstraði ment­ol-sígaretturnar ykkur næstu fjögur ár. Við fengum það þó í gegn að lengja þetta um fjögur ár. Þær ku geymast á­gæt­lega í frysti,” sagði Hildur að lokum.