Samkvæmt nýjum úrskurði Matvælaráðuneytisins þarf Fiskistofa að taka ákvörðun um synjun friðunar aftur til meðferðar.
Eigendur jarðarinnar Fossatúns höfðu farið á leit við Fiskistofu að land þeirra yrði friðað svæðisbundið fyrir fiskveiði. Er rekið hótel á jörðinni sem stendur við bakka Grímsár í Borgarfirði.
Fiskistofa hafði hafnað beiðni þeirra um svæðisbundna friðun á þeim grundvelli að ekkert benti til þess að nauðsyn væri á svæðisbundnum friðunaraðgerðum fyrir jörðinni til verndar fiskstofnum á veiðisvæði Grímsár og Tunguár.
Sagði í úrskurði ráðuneytisins að Fiskistofu hafi haft lögbundna skyldu til að afla umsagna bæði frá Hafrannsóknastofnun og veiðifélaginu. En það hafði stofnunin ekki gert, þegar henni barst beiðnin. Taldist stofnunin því ekki hafa gætt að rannsóknarreglu stjórnsýslulaga, og málið því ekki talist nógu upplýst þegar tekin var ákvörðun í því. Ber því Fiskistofu að taka málið aftur til efnislegrar meðferðar.
Beiðnin um friðun frá fiskveiði í ánni er hluti áralangri deilu landeiganda við Veiðifélag Grímsár og Tunguár, eru þeir skyldugir til að vera aðili að veiðifélaginu samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði. Byggist krafan á því að veiðifélaginu verði gert óheimilt að selja veiðihús félagsins á leigu til gisti- og veitingahúsarekstrar utan veiðitímabils.