Fiskeldisstöð Samherja fiskeldis á Stað við Grindavík hefur ekki orðið fyrir miklu tjóni vegna jarðhræringa á Reykjanesi. Grindavíkurbær var rýmdur á föstudagskvöld eftir að almannavarnir lýstu yfir neyðarstigi vegna aukinnar hættu á eldgosi innan bæjarmarka.

Starfsmaður Samherja fiskeldis hefur fengið að fara að stöðinni í fylgd björgunarsveitarmanna reglulega síðustu daga til að athuga með öll kerfi, þ.á.m. þau sem sjá um fóður. Engar skemmdir hafa orðið á kerjum stöðvarinnar og er ekki vitað til þess að skjálftarnir hafi haft teljandi áhrif á eldið.

Samkvæmt upplýsingum frá Samherja fiskeldi varð stöðin rafmagnslaus á laugardag en fyrirtækinu tókst að halda kerfunum uppi með ljósavélum. Þá er búið að koma olíu á svæðið sem dugir næstu daga ef til þess kemur.

Menn eru þó bjartsýnir á að það takist að koma rafmagni á aftur á næstunni. Fyrirtækið er þá með starfsstöð í Sandgerði og hefur vinnsla verið flutt þangað.

Að sögn fyrirtækisins er stærsta málið á þessari stundu að halda vel utan um starfsfólkið og tryggja öryggi þeirra. Þá eigi þau í stöðugu samtali við yfirvöld um stöðu mála.

Talsvert tjón hjá Matorku

Viðskiptablaðið greindi frá því fyrr í kvöld að Matorka hafi orðið fyrir talsverðu tjóni af völdum skjálftanna. Tvö stór ker brotnuðu þar illa og mikið magn fisks drepist í þeim. Tvö ker til viðbótar skemmdust en þar náðist að bjarga fisknum.

Framleiðsla þar er engin en vonir eru bundnar við að hægt sé að koma vinnslu aftur í gang bráðlega.