Bandaríska verslunin Target vonast nú til að lokka viðskiptavini til sín með því að lækka vöruverð en fyrirtækið tilkynnti nýlega að það myndi lækka verð á tæplega 5.000 vörum.

Verðlækkunin mun ná yfir almennar vörur, þar á meðal mikið af matvörum, með það í huga að koma til móts við fjárhagsstöðu neytenda.

Target birti nýlega uppgjör sitt en þar kom fram að sala fyrirtækisins hafði dregist saman um 3,7% og hefur gengi félagsins þá lækkað um 11% undanfarna 12 mánuði. Brian Cornell, forstjóri Target, sagði að neytendur virtust vera að eyða meiri pening í þjónustu frekar en varning.

Hann bætti við að vöruverð væri enn um 20% til 30% hærra en það var fyrir heimsfaraldur og setti það alvarlegt álag á veski neytenda.

„Við vitum að neytendur finna fyrir þrýstingi til að nýta fjárhagsáætlun sína sem best og Target er hér til að hjálpa þeim að spara meira. Teymin okkar vinna hörðum höndum að því að skila miklum verðmætum á hverjum degi og þessi nýju verð á þúsundum vara munu hjálpa milljónum neytenda að spara,“ segir Rick Gomez, framkvæmdastjóri matvæla hjá Target.

Að sögn fyrirtækisins mun það lækka verð á mjólk, kjöti, brauði, gosi, ferskum ávöxtum og grænmeti, snarli, jógúrt, hnetusmjöri, kaffi, bleyjum, pappírshandklæði, gæludýrafóðri og öðrum vörum.