Þýska líftæknifyrirtækið BioNTech, sem er með höfuðstöðvar í borginni Mainz, er orðið nokkuð þekkt vegna samstarfsins við lyfjarisann Pfizer en félögin þróuðu saman bóluefni gegn Covid-19 veirunni. Eftir velgengni bóluefnisins hafa tekjur BioNTech stóraukist og á sama tíma margfölduðust fyrirtækjaskattar Mainz.

Þó ekki liggur fyrir hvað BioNTech hefur greitt í skatta til Mainz á síðustu mánuðum þá herma heimildir Financial Times að fyrirtækið hafi nánast eitt séð um að hækka fyrirtækjaskatta borgarinnar úr 173 milljónum evra í fyrra í meira en milljarð evra í ár.

Það stefnir í að BioNTech, sem var stofnað í Mainz árið 2008, skili meira en 10 milljarða evra hagnaði í ár en búið er að afhenda meira en tvö milljarða skammta af BioNTech/Pfizer bóluefninu. Alls greiddi líftæknifyrirtækið meira en 3 milljarða evra í skatta til opinberra aðila á fyrstu níu mánuðum ársins, þar á meðal í Bandaríkjunum og öðrum þýskum borgum.

„Í gegnum faraldurinn hefur Mainz orðið apótek heimsins,“ er haft eftir Michael Ebling, borgarstjóra Mainz, sem hét því að nota skatttekjurnar frá BioNTech í að greiða niður skuldir borgarinnar.

Borgarstjórnin hyggst einnig lækka skatta á fyrirtæki í von um að laða að fleiri líftæknifyrirtæki. Í umfjöllun FT kemur fram að Mainz hefur lengi þótt fátækleg í samanburði við nágrannaborgina Frankfurt, fjármálamiðstöð Þýskalands.

Mainz er höfuðborg Rínarland-Pfalz, sem var með hæstu skammtímaskuldirnar á mann af sambandslöndum Þýskalands á síðasta ári en borgin hefur verið hluti af skuldalækkunaraðgerðaráætlun (e. debt relief programme) í nærri áratug.

Mainz mun hins vegar vera rekin með nærri 1,1 milljarða evra afgangi í ár og hið opinbera gerir ráð fyrir nærri hálfs milljarðs evra afgangi á næsta ári.