Uber Technologies, móðurfélag leigubílaþjónustunnar Uber, tapaði 157 milljónum dala á fyrsta ársfjórðungi, eða sem nemur 21,3 milljörðum króna miðað við gengið í dag. Tap félagsins dróst töluvert saman milli ára, en á sama fjórðungi í fyrra tapaði félagið 5,93 milljarða dala.

Tekjur fyrirtækisins jukust um 29% á milli ára og námu 8,82 milljörðum dala, eða sem nemur 1.200 milljörðum króna. Í frétt Wall Street Journal segir að veltuaukningin hafi verið í takt við væntingar markaðsaðila.

Uber skilaði 761 milljón dala jákvæðri EBITDA á fjórðungnum, þegar leiðrétt hefur verið fyrir rekstrarkostnaði sem stjórnendur félagsins telja að rekja megi til annars en reglubundins reksturs félagsins.

Félagið spáir áframhaldandi tekjuvexti og að leiðrétt EBITDA verði á bilinu 800 til 850 milljónir dala á öðrum ársfjórðungi.

Gengi bréfa Uber hækkaði um 12% við opnun markaða í gær. Gengi bréfa félagsins hefur hækkað um 44% frá byrjun árs.