Stjórn Nýherja hf. fól í gær AGC Partners, alþjóðlegum fjárfestingabanka með höfuðstöðvar í Boston, að hefja formlegt söluferli á verulegum eignarhlut í hugbúnaðarfyrirtækinu TEMPO ehf., dótturfélagi Nýherja. Þetta kemur fram í tilkynningu Nýherja til Kauphallarinnar.

Tempo þróar hugbúnaðarlausnir sem er ætlað að hjálpa fyrirtækjum að vinna á auðveldari og skilvirkari hátt. Viðskiptavinir Tempo eru fyrirtæki um allan heim, allt frá sprotafyrirtækjum í Fortune 500 fyrirtæki á borð við Amazon, BMW, Pfizer, HomeAway, PayPal, Hulu, Dell, Mercedes Benz, Starbucks, Porsche og Disney. Tempo var formlega stofnað 1. febrúar 2015. Hjá Tempo starfa um 100 starfsmenn, bæði á Íslandi og í Norður Ameríku.

Finnur Oddsson, forstjóri Nýherja, segir söluferli Tempo til alþjóðlegra fjárfesta hafa verið í undirbúningi um nokkurt skeið.

„Þróun og rekstur Tempo hefur gengið vel undanfarin misseri og hefur meðal annars falið í sér að undirbúa félagið undir söluferli til alþjóðlegra fjárfesta. Með þróun Tempo Cloud for JIRA og yfirfærslu yfir 7.000 viðskiptavina á nýtt skýjaumhverfi Tempo hjá AWS (Amazon Web Services), hafa opnast fjölmörg og spennandi tækifæri til frekari vaxtar, m.a með samþættingu við aðrar skýjaþjónustur en eingöngu JIRA frá Atlassian. Tempo er í dag mjög öflugt fyrirtæki. Þar starfa nú um 100 sérfræðingar og gert er ráð fyrir að tekjur verði yfir 17 milljónum dollara í ár.

Þetta eru meðal þeirra áfanga sem við vildum ná áður en formlegt söluferli hæfist. Síðastliðið ár hefur fjárfestingarbankinn AGC Partners verið okkur til ráðgjafar varðandi stefnumarkandi þætti í rekstri Tempo og aðstoðað okkur við almenna kynningu á félaginu til tæknifjárfesta. AGC Partners mun nú fylgja eftir þessum undirbúningi með formlegu söluferli á Tempo sem miðar að því að við fáum til liðs við okkur samstarfsaðila með mikla reynslu af alþjóðlegri uppbyggingu hugbúnaðarfyrirtækja. Þannig getum við best stuðlað að áframhaldandi vöruþróun hjá Tempo, tekjuvexti og virðisaukningu fyrir eigendur, starfsmenn og viðskiptavini.“

Gengi hlutabréfa í Nýherja hafa hækkað um 7,69% það sem af er degi í 56 milljón króna viðskiptum.