Fyrir helgi undirrituðu Íslandsstofa og forsvarsmenn kínversku innflutningssýningarinnar (e. China International Import Expo) samstarfsyfirlýsingu um áframhaldandi samstarf og þátttöku.

Kínverska innflutningssýningin mun fara fram dagana 5-10. nóvember næstkomandi í Shanghai.

Fyrir helgi undirrituðu Íslandsstofa og forsvarsmenn kínversku innflutningssýningarinnar (e. China International Import Expo) samstarfsyfirlýsingu um áframhaldandi samstarf og þátttöku.

Kínverska innflutningssýningin mun fara fram dagana 5-10. nóvember næstkomandi í Shanghai.

Sýningin var fyrst haldin fyrir sjö árum síðan og hafa nokkur af þekktustu fyrirtækjum heims sótt hana. Hún hefur einnig auðveldað mörgum íslenskum fyrirtækjum að kynnast kínverska markaðnum og umfangi hans.

Kristinn Björnsson, viðskiptastjóri sjávarútvegs og matvæla hjá Íslandsstofu, var kynnir fundarins sem haldinn var í höfuðstöðvum Íslandsstofu í Grósku. Hann sagði að með endurkomu eðlilegs lífs eftir heimsfaraldur væru ótal tækifæri fyrir fyrirtæki á kínverskum markaði.

„Nú þegar hafa 46 íslensk fyrirtæki tekið þátt í sýningunni en þau hafa mest verið matvæla- og drykkjarfyrirtæki. Fríverslunarsamningurinn milli Kína og Íslands hefur rutt veginn fyrir þessi fyrirtæki og ég tel að þetta sé bara byrjunin,“ segir Kristinn og bætir við að ferðaþjónustan er einnig að taka á móti fjölda kínverskra ferðamanna á ný.

Zhang Weimin, varaforseti kínversku þjóðarráðstefnu- og sýningardeildarinnar, undirritaði samstarfsyfirlýsinguna fyrir hönd Kína og vonast til að sjá sem flest íslensk fyrirtæki á sýningunni. Hann segir að það séu ótal fjárfestingartækifæri í Kína og að sýningin sé einn af mörgum drifkröftum kínverska efnahagsins.

Kristinn segir að það sé enn óljóst hve mörg íslensk fyrirtæki muni taka þátt í ár. Í fyrra mættu þó BioEffect, Omnom, Ísey, King Eider, Life Iceland, Reykjavik Distiller, Eimverk og Angan til að kynna sínar vörur og þjónustu.