Nokkrir nefndarmenn Framtíðarnefndar Alþingis eru nú staddir í Montevídeó, höfuðborg Úrúgvæ, á annarri heimsráðstefnu framtíðarnefnda. Þetta hefur Viðskiptablaðið samkvæmt heimildum, en ráðstefnan mun vera í það minnsta þriðja hópferð nefndarinnar á þessu og síðasta ári í sambærilegum tilgangi.

Ferðakostnaður Alþingis vegna utanferða þingmanna hefur aukist verulega á ný eftir snarpan samdrátt í heimsfaraldrinum, og stefnir nú í að verða sá mesti í hálfan annan áratug á þessu ári.

Yfirlýstur tilgangur ráðstefnunnar er meðal annars sá að „kanna nýjar nálganir til að takast á við þær áskoranir sem í gervigreind og annarri nútímatækni felast fyrir lýðræðið,“ með sérstakri áherslu á það lykilhlutverk sem þjóðþing og fyrirhyggjusamt verklag á þeim vettvangi muni koma til með að gegna á sviði stjórnvalda.

Ráðstefnan – sem hófst í gær og lýkur á morgun – er eins og nafnið gefur til kynna framhald sambærilegrar ráðstefnu sem haldin var í Helsinki í Finnlandi í október í fyrra.

Fóru í tvígang til Helsinki í fyrra

Þótt Framtíðarnefnd Alþingis telji 11 þingmenn kveða reglur ráðstefnunnar á um fjögurra manna hámarksfjölda ráðstefnugesta frá hverju landi, að viðbættum starfsmanni. Ekki tókst að fá fjölda íslenskra ráðstefnugesta staðfestan, en nokkur fjöldi nefndarmanna auk nefndarritara hefur verið fjarverandi það sem af er þingfundi dagsins, auk þess sem Halldóra Mogensen varaformaður hefur kallað inn varaþingmann í sinn stað. Síðasti fundur nefndarinnar var fyrir sléttri viku síðan, en fundargerð hans hefur ekki verið birt.

Á vef Alþingis má hins vegar finna tveggja blaðsíðna frásögn nefndarinnar af ferð til Finnlands í lok mars í fyrra í þeim tilgangi að „kynna sér starf framtíðarnefndar finnska þingsins og ýmis verkefni í forsætisráðuneyti Finnlands sem tengjast framtíðarfræðum, t.d. framtíðarskýrslu ríkisstjórnar Finnlands“. Þar kemur fram að 10 þingmenn hafi verið með í för ásamt nefndarritara, auk Eyþórs Benediktssonar hagfræðings og Freyju Steingrímsdóttur, aðstoðarmanns Loga Einarssonar þáverandi formanns Samfylkingarinnar.

Nánar er fjallað um erlendan ferðakostnað þingheims í Viðskiptablaði vikunnar sem kemur út í fyrramálið.