Þrír þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um breytingu á ýmsum lögum til að styðja við smærri innlenda áfengisframleiðendur. Meðal efnis frumvarpsins er að þak er sett á hve mikið má versla.

Athygli hefur vakið að frumvarpið er nánast hið sama og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, hyggst leggja fram á þingi og texti frumvarpsins víða nær hinn sami. Heimildir blaðsins herma að frumvarp ráðherrans sé væntanlegt á gólf þingsins á næsta leyti en treglega hafi gengið að fá þingflokk Framsóknarflokksins til að afgreiða það.

Það hafi því komið mörgum innan stjórnarflokkanna á óvart að sjá þrjá þingmenn leggja fram frumvarp sem er nánast hið sama að efni til eftir að hafa dregið að afgreiða það frá flokknum. Heimildir blaðsins herma enn fremur að ekki hafi náðst samstaða innan stjórnarflokkanna um sölu áfengis gegnum vefverslanir og að breytingartillaga í þá átt verði líklega lögð fram af þingmönnum.

Þingmannamálið felur meðal annars í sér heimild til að veita framleiðendum áfengis til að selja afurð sína á sölustað. Þak er hins vegar sett á það hve mikið má selja. Sé um bjór allt að 6% að styrk má kaupa kippu. Sé rúmmál hreins vínanda bjórsins aftur á móti 6-13% má aðeins kaupa þrjá. Þá má kaupa staka flösku af léttvíni og allt að þrjár flöskur af sterku. Frumvarp dómsmálaráðherra geymir ekkert slíkt þak.

Í frumvarpinu er ekki tekið fram hvernig eftirliti með þessum takmörkunum skuli háttað. Þá er ekkert að finna í því um hve langur tími þurfi að líða á milli þess að kvótinn sé nýttur þar til að brúka megi hann á nýjan leik.

Fyrsti flutningsmaður frumvarps Framsóknarmanna er varaþingmaðurinn Þórarinn Ingi Pétursson en að auki er þar að finna Silju Dögg Gunnarsdóttur og Höllu Signýju Kristjánsdóttur.