Árlegi tilboðsdagurinn Black Friday gaf ekkert eftir þetta árið en sala í smásöluverslunum í Bandaríkjunum jókst um 2,5% milli ára samkvæmt greiningu Mastercard SpendingPulse. Undanfarin ár hafa upplifunargjafir verið vinsælastar en þetta árið voru skartgripir og fatnaður helsti gjafavöruflokkurinn samkvæmt greiningunni.

Netverslun virðist halda áfram að sækja í sig veðrið, þar sem sala jókst um 8,5% milli ára á meðan sala í verslunum jókst um 1,1%, en Adobe Analytics greinir frá því að sala í netverslunum hafi numið hátt í tíu milljörðum dala. Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu Sensormatic Solutions virðist fólk þó ekki hætt að mæta í verslanir en heimsóknir jukust um 4,6% milli ára.