Tilnefningarnefnd Símans hefur lagt til að Valgerður Halldórsdóttir, einn stofnenda tölvuleikjafyrirtækisins Rocky Road, komi ný inn í stjórn Símans. Þetta kemur fram í skýrslu tilnefningarnefndar sem birt er í aðdraganda aðalfundar fjarskiptafélagsins sem fer fram 14. mars næstkomandi.

Tilnefningarnefnd Símans hefur lagt til að Valgerður Halldórsdóttir, einn stofnenda tölvuleikjafyrirtækisins Rocky Road, komi ný inn í stjórn Símans. Þetta kemur fram í skýrslu tilnefningarnefndar sem birt er í aðdraganda aðalfundar fjarskiptafélagsins sem fer fram 14. mars næstkomandi.

Fram kemur að af fjórir af fimm stjórnarmönnum Símans hafi gefið kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Ætla má því að Björk Viðarsdóttir, sem starfar sem framkvæmdastjóri þjónustu hjá TM, sækist ekki eftir endurkjöri en hún hefur setið í stjórn Símans frá árinu 2021.

Auk þeirra fjögurra núverandi stjórnarmanna voru fjórir einstaklingar sem buðu sig fram til stjórnarsetu en þrír þeirra drógu framboð sitt til baka.

Tilnefningarnefndin leggur til að eftirfarandi fimm einstaklingar verði kjörnir í stjórn Símans:

  • Jón Sigurðsson, stjórnarformaður – setið í stjórninni frá árinu 2019
  • Sigrún Ragna Ólafsdóttir, varaformaður – setið í stjórninni frá árinu 2021.
  • Arnar Þór Másson - setið í stjórninni frá árinu 2021
  • Bjarni Þorvarðarson – setið í stjórninni frá árinu 2019
  • Valgerður Halldórsdóttir

Eyjólfur Árni Rafnsson, Jensína Kristín Böðvarsdóttir og Steinunn Kristín Þórðardóttir skipa tilnefningarnefnd Símans. Jensína Kristín er formaður nefndarinnar.

Með hugarfar sem endurspeglar markaðsaðstæður og notendamynstur samtímans

Valgerður er meðstofnandi og rekstrarstjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Rocky Road sem var stofnað var árið 2022 og er nú starfandi í þremur löndum, Íslandi, Bretlandi og Úkraínu.

Valgerður leiddi viðskiptaþróun og ritstjórn QuizUp / Plain Vanilla, var framkvæmdastjóri fjártæknifyrirtækisins Framtíðarinnar og vaxtarstjóri hjá Teatime ásamt því að stofna fyrirtækið Matador Media. Þá var hún stjórnarmaður í Saga Film árin 2015-2020 og hefur setið í stjórnum ýmissa nýsköpunarfyrirtækja.

„Valgerður Halldórsdóttir er tilnefnd vegna víðtækrar reynslu af nýsköpun og tækni. Hún hefur stofnað þrjú sprotafyrirtæki og kemur að mati tilnefningarnefndar hugarfar sem endurspeglar markaðsaðstæður og notendamynstur samtímans. Að auki er Valgerður með tækniþekkingu sem nefndin telur að nýtist vel innan stjórnarinnar,“ segir í röksemdarfærslu nefndarinnar.