Stærsti hluti losunar á beinni ábyrgð Íslands kemur frá vegasamgöngum en mikil áhersla hefur verið lögð á orkuskiptin þar. Síðustu ár hefur stuðningur verið í formi ívilnana á forræði fjármála- og efnahagsráðuneytisins en um áramótin færist verkefnið yfir á gjaldahlið ríkissjóðs og verður á forræði umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins þar sem styrkjum verður úthlutað úr Orkusjóði.

„Við höfum verið að kalla eftir hugmyndum hvað þetta varðar og það er verið að vinna þetta núna í samvinnu við fjármálaráðuneytið með útfærslu og fyrirkomulagi sem verður síðan kynnt fyrir hagsmunaraðilum. Það samtal verður tekið og vonandi kemst í þetta niðurstaða í það. Þannig við ættum að geta séð núna á næstu vikum hvernig þetta lítur út,“ segir Guðlaugur.

Verið sé að vinna það eins hratt og auðið er en það taki tíma þar sem nauðsynlegt sé að hafa ferlið gagnsætt og fyrirsjáanlegt. Með tímanum verði minni þörf á styrkjum eða annars konar stuðningi.

„Þetta er tímabundið tæki til þess að koma okkur yfir í aðra orkugjafa, alveg eins og við fórum úr olíunni yfir í hitaveituna. Það var dýrt á meðan því stóð en það er búin að vera ein besta fjárfesting sem við höfum farið í. Nákvæmlega það sama erum við að gera núna,“ segir Guðlaugur.

Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu nam heildarfjárhæð ívilnana frá 2012 til 2022 34,5 ma.kr. Þar af fór 21 milljarður til kaupa á rafmagnsbílum en 13,4 milljarðar fóru til kaupa á tengiltvinnbílum. Fyrstu fimm árin nam fjárhæð ívilnana samanlagt 1,7 milljörðum en árið 2017 fór upphæðin upp í 2,3 ma.kr. og jókst stöðugt eftir það.

Árið 2022 nam upphæðin 10,5 ma.kr., þar af voru 9,6 milljarðar til kaupa á rafmagnsbílum. Alls voru ívilnanir veittar fyrir kaupum á 34 þúsund bílum á tímabilinu, þar af 18.500 rafmagnsbílum og 15.500 tengiltvinnbílum.

Bílaleigurnar spili lykilhlutverk

Aukin áhersla hefur verið lögð á stór ökutæki, vörubíla og annað slíkt, auk þess sem bílaleigurnar hafa verið styrktar en stuðningur til þeirra hefur verið harðlega gagnrýndur.

Guðlaugur bendir á að áður hafi bílaleigurnar fengið ívilnanir í formi niðurfellingar vörugjalda til kaupa á bensín- og díselbílum, sem hafi verið mistök. Sú ívilnun var 1.629 milljónir árið 2022.

Í ár fór þó einn milljarður króna til bílaleiga í formi ívilnana til kaupa á hreinum rafbílum. Sá stuðningur muni síðan á endanum nýtast heimilum landsins en bílaleigubílar eru yfirleitt í notkun í mjög skamman tíma áður en þeir eru seldir áfram.

„Það er útilokað fyrir okkur að ná þessum árangri nema að bílaleigurnar taki þátt í þessu vegna þess að þær flytja inn um 53% allra nýskráðra bíla á Íslandi. Umhverfið verður að vera þannig að það sé hagur fyrir bílaleigurnar að taka þátt í orkuskiptum og nauðsynlegt að þær fari í rafbíla vegna þess að annars náum við aldrei þessum markmiðum, með tilheyrandi kostnaði og veseni.“

Hluti stuðnings næstu ára muni þá fara í að aðstoða fyrirtæki í að skipta yfir í græna orkugjafa og til að hvetja aðila til að koma með grænar lausnir. Hvað heimili landsins varðar sé meðal annars verið að skoða að setja þak á kostnað bíla og markmiðið að allir tekjuhópar geti verið á rafbílum.

Nánar er rætt við Guðlaug í Orku og Iðnaði, sérblaði Viðskiptablaðsins sem kom út á miðviðkudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.