Norski olíu­sjóðurinn, stærsti þjóðar­sjóður heims, tapaði nýverið um 92 milljónum Banda­ríkja­dala eða um 12,6 milljarða ís­lenskra króna vegna Excel-villu.

„Í febrúar á þessu ári voru upp­götvuð reiknings­mis­tök í vísi­tölu­við­miði,“ segir í til­kynningu Noregs­banka sem stýrir sjóðnum en Financial Times greinir frá.

Samkvæmt FT hefur olíusjóðurinn gert sambærileg mistök áður enda fylgir því töluverður útreikningur að sjá um stærsta fjárfestingasjóð heims. Eignir norska olíusjóðsins eru metnar á 1.5 þúsund milljarða Bandaríkjadali.

Mistök sjóðsins hafa þó aldrei verið svona kostnaðarsöm, tapið vegna reiknivillunnar er tvöfalt meira en allar reiknivillur sjóðsins á árunum 2010 til 2020.

Mis­tökin áttu sér stað um vorið 2022 en norska fjár­mála­ráðu­neytið uppgötvaði reikni­villuna undir lok síðasta árs.

Sjóðurinn hefur unnið skýrslu um mis­tökin en þar er einungis talað um að mis­tökin hafi verið fram­kvæmd í „risa­stórri“ reikni­töflu (e. spreads­heet) sem verið var að vinna í.

Þá hefur FT eftir Pat­rick du Plessis, yfir­manni á­hættu­eftirlits hjá olíu­sjóðnum, að honum hafi liðið líkam­lega illa þegar honum var greint frá mis­tökunum.