Iceland Seafood International (ISI) tapaði 15,3 milljónum evra á fyrstu sex mánuðum ársins 2023, eða um 2,2 milljörðum króna á gengi dagsins. Til samanburðar tapaði ISI um 2,9 milljónum evra á sama tíma árið 2022.

Velta ISI nam 222,3 milljónum evra, eða sem nemur tæplega 32 milljörðum króna, og jókst um 7% á milli ára.

Eignir samstæðunnar voru bókfærðar á 272,6 milljónir evra í lok júnímánaðar, eða um 39 milljarða króna. Eigið fé nam 71,5 milljónum evra eða um 10 milljarða króna miðað við núverandi gengi krónunnar.

Yfirgefa Bretlandsmarkað

ISI tilkynnti fyrr í dag að það hefði náð samkomulagi um sölu á öllu hlutafé í breska dótturfélaginu Iceland Seafood UK til danska sjávarafurðafyrirtækisins Espersen A/S.

Þegar salan gengur í gegn í september verða fasteign, tæki og vélbúnaður í eigu Iceland Seafood UK seld til Iceland Seafood Barraclough, dótturfélags í eigu ISI, og leigð aftur til Iceland Seafood UK.

Í lok leigutímans er IS UK með kauprétt að fasteigninni. Þá hafa félögin samið um svokallaðan kaupleigusamning vegna tækja og vélabúnaðar sem munu þá færast í eignarhald IS UK við lok leigutímans.

Neikvæð áhrif bresku starfseminnar á ISI á árinu 2023 eru áætluð 15 milljónir punda. Þar af er virðisrýrnun rekstrarfjármuna upp á 7,1 milljónir punda og afskriftir birgða upp á 1,32 milljónir punda.

Stjórn ISI tilkynnti um miðjan nóvember í fyrra að hún hefði ákveðið að yfirgefa Bretlandsmarkað, þar sem rekstur breska dótturfélagsins Iceland Seafood UK hefði gengið erfiðlega á síðustu þremur árum.

Í kjölfarið slitnað tvívegis upp úr viðræðum eftir að félagið hafði skrifað undir viljayfirlýsingu við áhugasama aðila.