Nýsköpunarfyrirtækið Uber hefur safnað nægilega mörgum undirskriftum til þess að það hefji vinnu að því að markaðssetja þjónustu sína í Reykjavík. Þetta kemur fram á vefsíðu fyrirtækisins .

Uber er snjallsímaforrit sem býður upp á leigubílaþjónustu, en þó er ekki um að ræða hefðbundna leigubílaþjónustu. Setji snjallsímaeigendur upp Uber-appið geta þeir fundið næsta bílstjóra og sýnir appið hversu langt er í hann. Greiðsla fer svo fram í gegnum appið.

Verðið á þessari þjónustu hefur reynst lægra en á hefðbundinni leigubílaþjónustu og hafa hagsmunasamtök leigubílastjóra víða um heim mótmælt þjónustunni. Fyrirtækið starfrækir þjónustu sína í 250 borgum í 50 löndum og hefur vaxið hratt að undanförnu.

Óttast nauðganir og fíkniefnasölu

Í Viðskiptablaðinu þann 23. október var greint frá því að OECD og Samkeppniseftirlitið leggist harðlega gegn núverandi fyrirkomulagi lögbundinna aðgangshindrana á leigubílamarkað. Engin efnisleg rök séu til að viðhalda tilbúnum skorti með leyfi til að aka leigubíla að mati þessara stofnana.

Eigendur leigubílastöðva sem Viðskiptablaðið ræddi við telja þetta fásinnu, og að OECD og Samkeppniseftirlitið gangi erinda peningaafla í samfélaginu.  Sæmundur Kristján Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri Hreyfils telur hættu geta skapast með auknu frjálsræði, enda gætu leigubílar þá orðið kjörinn vettvangur til að stunda eiturlyfjasölu og alls konar glæpamennsku.

Spurður hvort hann teldi hætt við því að slík starfsemi yrði stunduð af bílstjórum leigubifreiða ef fleirum yrði hleypt inn á leigubílamarkað sagði Sæmundur í samtali við Viðskiptablaðið: „Þú getur rétt ímyndað þér maður. Hverjir heldur þú að yrðu farnir að stunda hér leiguakstur? Hvað erum við að heyra alltaf, með nauðganir og hitt og þetta og svarta sjóræningjastarfsemi. Eru ekki mörg dæmi þess að menn eru að lokka konur upp í bíla hér um helgar?“