Fljótt kom í ljós að mikil eftirspurn var eftir slíkri fræðslu, en fyrirlestrunum var mjög vel tekið. „Ég fór að tala um tilfinningarnarnar; hvernig fólki líður, við erum að lesa allar þessar fréttir um sífelldar hörmungar, þetta er óþægilegt og við ýtum því frá okkur. Það var spennandi að sjá hvernig það að gera hlutina skemmtilega og taka þetta „stigma“ af – að þetta sé allt svona hræðilegt – hvernig það kveikti í fólki. Fólk vildi tala um þetta. Þannig kviknaði eiginlega hugmyndin að fyrirtækinu; að þetta yrði gert þannig að fólki liði vel.“

Snjólaug var þó ekki að uppgötva ástríðu sína fyrir umhverfismálum fyrst þá, heldur hefur hún frá því að hún man eftir sér verið ötull umhverfissinni. „Þetta hefur bara einhvern veginn alltaf fylgt mér, ég hef haft áhuga á þessu síðan ég var barn. Ég man eftir mér 6-7 ára hlaupandi á eftir krökkunum í hverfinu að segja þeim að vera ekki að henda karamellubréfum á götuna.“

Hún hefur meira en bara brennandi áhuga á umhverfismálum fram að færa, hún er einnig með doktorsgráðu í umhverfisverkfræði. „Ég hef alltaf valið nám þessu tengt, ég fór í efnafræði upp á þetta að gera, að læra betur um umhverfismál og síðan fer ég í umhverfisverkfræðina í framhaldinu.“ Það er því óhætt að segja að hún sé einstaklega hæf til starfsins.

Snjólaug leggur mikla áherslu á að gera hlutina skemmtilega, kveikja áhuga hjá fólki og tala og hugsa um þá á jákvæðum nótum. „Þetta er ekki barátta. þetta er skemmtilegt verkefni. Ég fjalla um alls konar leiðir sem hægt er að fara, bæði í vinnunni og heima fyrir, til að hjálpa fólki að velja; hvað skiptir mig máli og hvað ekki? Hvar get ég auðveldlega gert eitthvað?“

Lokamarkmiðið er þó fyrst og fremst að kveikja áhuga fyrirtækja og starfsmanna þeirra á sjálfbærni og umhverfismálum fyrirtækja. „Það sem ég vil gera er að gera vinnustaðinn sjálfum sér nægan í þessum málum, þannig að hugmyndirnar komi frá starfsfólkinu. Þótt ég sé ráðgjafi þá er það ekki ég sem á að koma og segja: gerðu þetta, gerðu hitt, heldur frekar að kenna hugmyndafræðina og leiða fyrirtækið áfram í að mynda sér sýn til framtíðar.“