Það má segja að fráfarandi ríkisstjórn hafi sýnt spilin sín og áherslur með fjárlagafrumvarpinu – hvernig hefði fjárlagafrumvarp undir forystu VG litið öðruvísi út? „Í fyrsta lagi hefðum við séð aðra stefnu í skattamálum. Það liggur alveg fyrir. Ef við værum ein í ríkisstjórn myndum við gera ákveðnar skattkerfisbreytingar

Ég hef sagt mjög skýrt að við viljum ekki hækka skatta á almenning, ekki milli- eða lágtekjuhópa, en við teljum eðlilegt að sækja fjármagn þangað sem það er að finna eins og ég hef orðað það, til þeirra tekjuhæstu og auðugustu í samfélaginu. Við hefðum líka horft á það með öðrum hætti að það þarf að vera jafnvægi milli þess hversu hratt við greiðum niður skuldir – það eru allir sammála um mikilvægi þess að greiða niður skuldir og að einskiptistekjur skili sér í það verkefni – en um leið finnst mér ekki vera nægjanlega skýrt jafnvægi milli niðurgreiðslu skulda og að huga að innviðum. Við gætum í raun og veru skapað okkur aukinn kostnað til lengri tíma með því að huga ekki nægilega vel að rekstri heilbrigð- iskerfisins eða skólanna. Mér finnast skólamálin hafa verið vanreifuð því heilbrigðismálin eru svo áberandi.

Bara það að vera með svona stórkostlega undirfjármagnaða há- skóla til lengri tíma er vandamál fyrir atvinnulífið og efnahaginn í framtíðinni. Fjárlagafrumvarpið hefði því litið öðruvísi út. Við gengum í gegnum miklar skattkerfisbreytingar þegar við vorum í ríkisstjórn 2009-2013. Þeim var mörgum hverjum snúið við af næstu ríkisstjórn. Það var svo og farið í enn aðrar skattkerfisbreytingar. Ég held að við þurfum að horfa öðruvísi á þetta. Við þurfum að eiga meira samtal við aðila vinnumarkaðarins, Samtök atvinnulífsins og verkalýðshreyfinguna, til að skapa aukna sátt um hvernig við ætlum að móta skattkerfið til framtíðar. Það eru stórir kjarasamningar fram undan og okkur er mörgum tíðrætt um að það þurfi að ná sátt á vinnumarkaði. Hvernig ætlum við að gera það? Til dæmis með því að ná aukinni sátt um annars vegar skatt- og bótakerfin og hins vegar ákveðna grunnþætti í þessu velferðarsamfélagi.“

Langt á milli VG og Sjálfstæðisflokks

Kæmi stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn til greina? „Við útilokum ekki samstarf við neinn. Það er hluti af því sem gerðist síðast, gríðarleg umræða fyrir kosningar þar sem allir flokkar voru svolítið búnir að raða þessu niður fyrirfram. Reynslan kennir manni að það þýðir ekki að mynda ríkisstjórn fyrr en það er búið að kjósa,“ segir Katrín og brosir. „Við sjáum það öll að þessi tveir flokkar eru lengst hvor frá öðrum í þessum stóru, klassísku vinstri-hægri málum. Tilvistargrunnur þessara tveggja flokka er mjög ólíkur. Það ætti að liggja í augum uppi.“

Katrín talaði um í kosningaumræðuþætti RÚV á sunnudagskvöldið að allir hagvísar vísuðu í eina átt. Hagstofan birti auk þess tölur í síðustu viku um að enn drægi saman með eignamestu tí- undinni og þeirri eignaminnstu. Því má velta upp hvort misskipting sé að minnka.

„Misskiptingin er vandamál þótt við stöndum vel í alþjóðlegum samanburði. Og misskiptingin er meiri þegar eignastaðan er skoðuð en í tekjudreifingunni. En sem betur fer er margt mjög gott að gerast í íslensku efnahagslífi og eitthvað sem við getum öll verið ánægð með og þurfum ekki að gera ágreining um.

Hins vegar er það líka svo að við erum með fátækt í samfélaginu sem við tökumst ekki á við með réttum hætti. Þó að bilið sé að minnka því almenna velgengnin skilar því að fleiri bæta stöðu sína þá sjáum við líka að þær skattkerfisbreytingar sem hafa verið gerðar eru ekki endilega til þess fallnar að draga úr misskiptingu. Við teljum að það megi gera betur í þessum málum. Allar tölur sýna til dæmis að þeir sem eru á leigumarkaði standa verst. Það er fátækasta fólkið sem kemst ekki inn á eignamarkaðinn.“

Innviðirnir verðmæti fyrir allt venjulegt fólk

Hvernig sérðu Ísland fyrir þér eftir næsta kjörtímabil, að því gefnu að þú verðir í forsætisráðuneytinu? „Mér finnst þetta í rauninni ekkert flókið verkefni. Það sem ég heyri er að hlutirnir gangi yfirleitt betur hjá hverjum og einum persónulega en fólk vill sjá meira lagt í samfélagslega uppbyggingu. Það er verkefnið sem er fram undan. Það er mikilvægt að við höldum þessu jafnvægi batnandi lífskjara og stöðugleika en líka innviðanna okkar sem eru verðmæti fyrir allt venjulegt fólk og við þurfum að passa upp á þau. Svo þurfum við líka að velta fyrir okkur af hverju fólk upplifir að stjórnmálin séu svona úr tengslum við almenning. Við getum reynt að breyta stjórnmálunum dálítið í þessu. Ég hef mjög skýra stefnu og skýra sýn en ég veit að við munum þurfa að skapa breiðari samstöðu og þá er spurning hvort fólk er reiðubúið að standa með því eða ekki. Við sjáum að almenningur hefur ekki haft mikið umburðarlyndi fyrir stjórnmálunum. En þá verður bara að segja það hreint út að við þurfum að stefna í rétta átt en Róm var ekki byggð á einum degi. Ég sat í ríkisstjórn sem ætlaði sér mjög mikið og lærdómurinn er að ef maður ætlar sér of mikið þá verða vonbrigðin meiri. Þú þarft að hafa sýn en þú þarft að vera viss um að þú ráðir við það verkefni sem þú ætlar í. Íslenskt samfélag ræður við að skila þessum samfélagslegu innviðum af sér í miklu betra ástandi en þeir eru í núna.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.