Á hverju ári ganga íslensku lífeyrissjóðirnir undir tryggingafræðilega athugun við uppgjör samkvæmt lögum. Athugunin á að leiða í ljós hvort að lífeyrissjóður geti staðið við skuldbindingar sínar, en hreinar eignir verða að vera 90% af skuldbindingum í hið minnsta. Samkvæmt lögunum skal nota uppgjörskröfu við útreikning tryggingafræðilegs hagnaðar (eða taps).

Samkvæmt reglugerð um tryggingafræðilega athugun, sem kveður á um framkvæmd hennar, skal núvirða væntar skuldbindingar og eignir, eins og skuldabréf, miðað við 3,5% raunávöxtunarkröfu. Verðtryggð skuldabréf skulu hins vegar núvirtar með 3,5% kröfu. Ef tryggingafræðilegt virði hreinna eigna er minna en 90% af virði skuldbindinga þarf sjóðurinn að skerða réttindi sjóðsfélaga. Þetta gildir einnig ef virði eignanna er undir 95% fimm ár í röð.

Almennt hafa rannsóknir um íslensku lífeyrissjóðina beinst að stærð lífeyrissjóðskerfisins og takmarkandi áhrifum fjármagnshafta á fjárfestingakosti. Á hinn bóginn hafa möguleg áhrif reglna um tryggingafræðilegt uppgjör lífeyrissjóðanna á íslenska fjármálamarkaðinn lítið sem ekkert verið rannsökuð formlega. Bent hefur verið á að uppgjörskrafan myndi gólf fyrir verðtryggða vexti og hafi áhrif á vaxtarófið, og að reglugerðin hafi áhrif á mat lífeyrissjóða á skuldabréfum annarra en ríkisins. En efnið hefur aldrei verið rannsakað með tilliti til vaxtaáhættu.

Vaxtaáhætta er áhætta sem fjárfestar standa frammi fyrir í skuldabréfaviðskiptum, en hún vísar til næmni skuldabréfaverðs gagnvart vaxtabreytingum. Þessi næmni er að mestu leyti háð tímasetningu á greiðsluflæði skuldabréfs, nafnvöxtum þess og tíma til gjalddaga.

Nýleg meistararitgerð í fjármálum fyrirtækja frá Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands reynir að fylla í þá eyðu sem til staðar er í umfjölluninni um lífeyrissjóðina. Samkvæmt henni hefur tryggingafræðilegt uppgjör áhrif á áhættustýringu á verðtryggða skuldabréfamarkaðnum, með þeim hætti að hinn hefðbundni mælikvarði á vaxtaáhættu með meðaltíma ofmetur vaxtaáhættu. Að sama skapi gefur þetta til kynna afbrigðilega hegðun eða verðmyndun á verðtryggða markaðnum. Ritgerðin var unnin af Húna Jóhannessyni undir leiðsögn Hersis Sigurgeirssonar, dósents.

Uppgjörskrafa myndar fjárfestingarviðmið

Tryggingafræðilegt uppgjör getur haft áhrif á verðtryggða skuldabréfamarkaðinn og áhættustýringu á þeim markaði í gegnum stærð og umfang lífeyriskerfisins. Eignir lífeyriskerfisins voru um 3.277 í árslok 2015, eða 36,3% af íslenska fjármálakerfinu. Árið 2015 voru eignir lífeyriskerfisins 150% af vergri landsframleiðslu og næststærsta lífeyrissjóðskerfi heims á þeim mælikvarða. Lífeyrissjóðirnir eiga 66,1% af öllum skuldabréfum á markaði, ótalið óbeint eignarhald í gegnum hlutdeildarskírteini, sem nemur 726 milljörðum króna. Þeir eiga ennfremur um 80% af skuldabréfum Íbúðalánasjóðs.

Fram að losun fjármagnshafta hafði tryggingafræðilegt uppgjör einnig mögulega áhrif á markaðinn í gegnum höftin, vegna þess að höftin takmörkuðu fjárfestingartækifæri lífeyrissjóðanna.

Reglugerðin sjálf um tryggingafræðilegt uppgjör hefur síðan bein áhrif á skuldabréfamarkaðinn og stýringu vaxtaáhættu. Fyrst að sjóðirnir standa frammi fyrir skerðingum á réttindindum sjóðsfélaga ef þeir fylgja ekki eftir uppgjörsreglunni, þá myndar 3,5% uppgjörskrafan viðmið fyrir fjárfestingar lífeyrissjóðanna á skuldabréfamarkaði sem eins konar lágmarks ávöxtunarkrafa.

Ofmetin vaxtaáhætta og verðbjögun

Sú tilgáta var því lögð fram, að verðtryggða vaxtarófið, sem sýnir breytileika verðtryggðra vaxta eftir lánstíma, hreyfist með þeim hætti að tryggingafræðilegur hagnaður (eða tap) er sá sami yfir allt rófið. Þar með myndu lífeyrissjóðirnir sjálfkrafa „regla“ vaxtarófið, vegna þess að lífeyrissjóðirnir myndu kaupa skuldabréf sem gefur mestan hagnað (eða minnst tap) í tryggingafræðilegum skilningi þar til ávöxtunarkrafa bréfsins og verð færast í það horf að öll bréf eru jafngild í tryggingafræðilegum skilningi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi undir Tölublöð .