Fjár­festing í hluta­bréfa­sjóðum tók ötlítið við sér í októ­ber eftir sögu­lega dræma sölu á hlut­deildar­skír­teinum í septem­ber­mánuði.

Sala á hlut­deildar­skír­steinum nam 314 milljónum króna á meðan út­flæðið var 1,7 milljarðar króna.

Mun það vera hækkun úr 160 milljónum í septem­ber­mánuði en fjár­festing í hluta­bréfa­sjóðum náði sögu­lega lág­marki í septem­ber og hafði ekki verið minni í 13 ár.

Htrein útflæði úr hlutabréfabréfasjóðum hélt því áfram þriðja mánuðinn í röð og nam 1,4 milljörðum í október.

Heimili minnka við sig

Fyrir utan fjár­mála­geirann eru heimili og líf­eyris­sjóðir helstu eig­endur hlut­deildar­skír­teina í hluta­bréfa­sjóðum.

Eignir heimila í hluta­bréfa­sjóðum minnkaði á milli mánaða um rúma 2 milljarða og fór úr 34,6 milljörðum í 32,3 milljarða. Eignir líf­eyris­sjóða minnkuðu einnig milli mánaða um rúma tvo milljarða og stóðu í 32,3 milljörðum í lok októ­ber.

Fjár­mála­geirinn er enn þá stærsti eig­andi hluta­bréfa­skír­teina en eignir fóru úr 62,4 milljörðum í 57,8 milljarða milli mánaða.

Lífeyrissjóðir keyptu í peningamarkaðssjóðum

Fjár­festing í blönduðum verð­bréfa­sjóðum jókst milli mánaða og fór sala á hlut­deildar­skír­teinum úr 4,9 milljörðum í septem­ber í 6,2 milljarða í októ­ber.

Út­flæðið lækkaði lítil­lega milli mánaða og fór úr 4,4 milljörðum í 4,2 milljarða.

Innflæði í blandaða sjóði var því jákvætt um rúma 2 milljarða.

Inn­flæði í peninga­markaðs­sjóði var meira en út­flæði í októ­ber sem var við­snúningur frá síðasta mánuði.

Sala á hlut­deildar­skír­teinum í peninga­markaðs­sjóðum jókst um 5 milljarða milli mánaða á meðan út­flæði dróst saman um milljarð.

Eignir heimilanna í peninga­markaðs­sjóðum jukust um milljarð milli mánaða á meðan líf­eyris­sjóðir bættu eignir sínar um 5,5 milljarða í októ­ber og stóðu eignir þeirra í 12,8 milljörðum í lok mánaðar.

Velta á markaði jókst um 22%

Ís­lenski hluta­bréfa­markaðurinn tók við sér í síðasta mánuði eftir annars vegar dauft ár.

Úr­vals­vísi­talan OMXI 10 hækkaði um 5,1% í nóvember. Heildar­við­skipti með hluta­bréf í mánuðinum námu 62,5 milljörðum eða 2.839 milljónum á dag.

Mun það vera 22% hækkun frá fyrri mánuði, en í októ­ber námu við­skipti með hluta­bréf 2.336 milljónum á dag.

Heildar­fjöldi við­skipta með hluta­bréf í nóvember voru 7.909 talsins eða 360 að jafnaði á dag.

Það er 37% hækkun frá fyrri mánuði, en í októ­ber voru við­skipti með hluta­bréf 263 að jafnaði á dag.