Sjávarútvegsfyrirtækið Útgerðarfélag Reykjavíkur (ÚR), sem er í meirihlutaeigu Guðmundar Kristjánssonar forstjóra Brims, á nú 25% hlut í íslensku bátasmiðjunni Rafnar ehf.
Fyrr í dag gengu ÚR og Rafnar frá samkomulagi um kaup ÚR á 10% hlut í OK Eignarhaldsfélagi ehf., sem er móðurfélag Rafnar, fyrir 400 milljónir króna.
Samhliða kaupunum þá mun ÚR nýta breytirétt á skuldabréfi og verður ÚR þar með samtals 25% hluthafi í OK Eignarhaldsfélagi ehf.
Runólfur Viðar Guðmundsson og Guðmundur Kristjánsson sitja í stjórn félagsins fyrir hönd ÚR.
Félag í eigu Össurar Kristinssonar og fjölskyldu hans er áfram stærsti hluthafi félagsins
„Fjárfesting ÚR verður nýtt til að styðja við áframhaldandi vöxt og uppbyggingu félagsins á alþjóðamörkuðum en mikil eftirspurn er eftir bátum sem byggðir eru samkvæmt einkaleyfisvarinni hönnun Össurar Kristinssonar,“ segir í tilkynningu tilKauphallarinnar.
„Langtímamarkmið ÚR er að einblína á nýsköpun á arðbærum og vaxandi mörkuðum í haftengdri starfsemi og er fjárfestingin í Rafnar hluti af þeirri stefnu“ segir Runólfur Viðar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Reykjavíkur.
„Það er gríðarlegur styrkur að fá Útgerðarfélag Reykjavíkur inn sem hluthafa og ekki síður þátttakanda í þeirri vegferð sem fram undan er hjá félaginu. Sú þekking á haftengdri starfsemi, útgerð skipa og rekstri stórra öflugra fyrirtækja sem ÚR kemur með að borðinu er ómetanleg“ segir Björn Ársæll Pétursson, stjórnarformaður Rafnar.