Líkur á orkuskerðingum hafa aukist og mögulega kemur til skerðinga á forgangsorku samkvæmt nýrri skýrslu Landsnets, þar sem horft er til tímabilsins 2024-2028.
Ef miðað er við að allt gangi upp við uppbyggingu flutningskerfisins og innkomu nýrra virkjana og að vatnsár verði góð, fer staðan versnandi fram til ársins 2026 og batnar eftir það, en engu að síður eru líkur á að orkuskortur verði meiri árið 2028 en í ár.
Þá gætu næstu 12-18 mánuðir reynst sérstaklega flóknir en vísbendingar eru um að það verði áfram slæmt vatnsár. Þar með aukast líkurnar á skerðingum á forgansorku enn meira.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra, hefur lagt fram nokkur frumvörp á yfirstandandi þingi sem snúa að orkumálum.
Þar á meðal er frumvarp sem snýr að því að tryggja raforkuöryggi heimilanna sem og frumvörp um sameiningar stofnana með því að markmiði að gera þær skilvirkari.
Guðlaugur segir gríðarlega mikilvægt að þau mál klárist á yfirstandandi þingi en Alþingi verður að óbreyttu slitið í næstu viku. Ef málin eru ekki kláruð núna geti þau hæglega tafist til lengri tíma. Sjálfur myndi hann vilja að Alþingi starfi áfram þar til málin hafa verið afgreidd.
„Við vitum alveg í hvaða stöðu við erum, það liggur fyrir að næstu tvö ár verði þung af því að það var svo lítið gert í 15-20 ár,“ segir Guðlaugur.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.