Tilnefningarnefnd Íslandsbanka og valnefnd Bankasýslu ríkisins hafa lagt til að Valgerður Hrund Skúladóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Sensa, og Stefán Sigurðsson, fyrrum forstjóri Sýnar, verði kjörin í sjö manna stjórn Íslandsbanka á aðalfundi bankans sem fer fram 21. mars næstkomandi.

Tilnefningarnefnd Íslandsbanka og valnefnd Bankasýslu ríkisins hafa lagt til að Valgerður Hrund Skúladóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Sensa, og Stefán Sigurðsson, fyrrum forstjóri Sýnar, verði kjörin í sjö manna stjórn Íslandsbanka á aðalfundi bankans sem fer fram 21. mars næstkomandi.

Í skýrslu tilnefningarnefndar kemur fram að Anna Þórðardóttir, sem hefur setið í stjórninni frá árinu 2016, hafi tilkynnti nefndinni í síðasta mánuði að hún myndi ekki sækjast eftir endurkjöri.

Þá sagði Frosti Ólafsson sig úr stjórninni í byrjun árs þar sem hann var að taka við stöðu hjá McKinsey & Company. Frosti, sem er fyrrum framkvæmdastjóri Olís, hafði setið í stjórninni frá árinu 2020.

Í stjórn Íslandsbanka sitja sjö einstaklingar. Af þeim tilnefnir þriggja manna valnefnd Bankasýslu ríkisins þrjá stjórnarmenn, í samræmi við 42,5% eignarhlut ríkisins í bankanum. Bankasýslan tilnefnir eftirtalda einstaklinga:

  • Agnar Tómas Möller, stjórnarmaður - tók sæti í stjórn í mars 2023
  • Haukur Örn Birgisson, stjórnarmaður - tók sæti í stjórn í júlí 2023
  • Valgerður Hrund Skúladóttir, tilnefnd í stjórn

Tilnefningarnefnd bankans leggur til að auk þeirra sem Bankasýslan tilnefndi verði eftirtalin kjörin í stjórn bankans:

  • Linda Jónsdóttir, stjórnarformaður – tók sæti í stjórn í júlí 2023
  • Helga Hlín Hákonardóttir, stjórnarmaður – tók sæti í stjórn í júlí 2023
  • Stefán Pétursson, stjórnarmaður – tók sæti í stjórn í júlí 2023
  • Stefán Sigurðsson, tilnefndur í stjórn

Tilnefningarnefnd leggur jafnframt til, í samráði við Bankasýslu ríkisins, að Linda Jónsdóttir verði endurkjörin sem formaður stjórnar.

Tólf framboð bárust

Í skýrslu tilnefningarnefndar kemur fram að tólf framboð til aðalstjórnar hafi borist til nefndarinnar. Fimm þeirra voru síðar dregin til baka.

Valnefnd Bankasýslunnar tilnefnir Valgerði Hrund Skúladóttur í stjórn bankans. Hún var kosinn í stjórn Íslandsbanka á aðalfundi í fyrra en hlaut ekki endurkjör á hluthafafundi í júlí í fyrra.

Valgerður er stofnandi upplýsingatæknifyrirtækisins Sensa og hefur verið framkvæmdastjóri þess frá upphafi stofnun félagsins árið 2002. Hún hefur setið í stjórnum upplýsingatæknifyrirtækjanna Staki Automation og Talenta, Siminn DK og Sensa A/S og situr núna í stjórn fjártæknifyrirtækisins Memento og Erit ehf.

Þá leggur tilnefningarnefnd Íslandsbanka til að Stefán Sigurðsson taki sæti í stjórn bankans. Hann þekkir vel til bankans en hann starfaði sem framkvæmdastjóri eignastýringar Íslandsbanka á árunum 2008-2014 og var meðlimur framkvæmdastjórnar bankans, forstöðumaður og síðar framkvæmdastjóri Stefnumótunar hjá Glitni. Þar áður sem verkefnastjóri fyrirtækjaráðgjafar Glitnis í Danmörku. Einnig starfaði hann að eigin viðskiptum Íslandsbanka á árunum 1998-2000.

Stefán starfaði sem forstjóri Sýnar á árunum 2014-2019. Hann býr í Kaupmannahöfn og starfar nú að eigin verkefnum og sem sjálfstætt starfandi ráðgjafi. Stefán er í dag stjórnarformaður Verðbréfamiðstöðvar Íslands hf., auk þess að sitja í stjórn FÓLK Reykjavík ehf., Isavia ANS ehf., North Ventures ehf. og North Ranga ehf.

Í tilnefningarnefnd Íslandsbankans sitja Helga Valfells sem er formaður nefndarinnar, Hilmar Garðar Hjaltason og Linda Jónsdóttir, sem er jafnframt stjórnarformaður Íslandsbanka.

Á heimasíðu Bankasýslunnar kemur fram að í valnefnd hennar sitja Sverri Briem, sem er formaður valnefndarinnar, ásamt Ólafíu Rafnsdóttur og Birki Leóssyni.