Strætó þarfnast eins og hálfs milljarðs króna framlags frá eigendum sínum, sem eru sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins, til að mæta rekstrarvanda og bágri fjárhagsstöðu félagsins. Þetta segir Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, í samtali við Viðskiptablaðið. Í endurskoðaðri fjárhagsáætlun Strætó í vor kom fram að félagið myndi óska eftir 750 milljónum króna frá eigendum sínum en fjárþörfin hefur aukist frá þessari áætlun.

„Þetta fer þó eftir því á hvaða stað við viljum hafa Strætó eftir þetta framlag. Okkur nægir mikið minna til að geta haldið sjó en ef við viljum að Strætó verði sjálfbært með fjárfestingar og annað slíkt erum við að tala um allt að einn og hálfan milljarð. Þannig væri hægt að ná upp veltufjárhlutfalli og eiginfjárhlutfalli,“ segir Jóhannes. Veltufjárhlutfall Strætó var komið niður í 0,4 í lok júní og eiginfjárhlutfall um 7%.

Reglulegir fundir hafi farið fram og séu á dagskrá á næstunni með sveitarfélögunum og stjórn Strætó til að finna lausnir á rekstrarvandanum. Hann segir þrjár breytur helst hafa orsakað þungan rekstur Strætó. „Ef heimsfaraldurinn hefði ekki skollið á má reikna með að uppsafnaðar tekjur okkar á heimsfaraldurstímabilinu hefðu verið hátt í tveimur milljörðum króna hærri. Miklar kostnaðarverðshækkanir sem komu fram eftir fyrsta ársfjórðungs yfirsandandi árs hafa einnig haft gríðarleg áhrif á reksturinn. Þá er ekkert launungamál að vinnutímastyttingin var dýr. Aukinn kostnaður vegna vinnutímastyttingar var nú fyrirséður en faraldurinn og kostnaðarverðshækkanirnar var eitthvað sem síður mátti eiga von á. Þetta þrennt hefur sett stöðu félagsins í þann farveg sem nú er.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.