Forstjóri danska skiparisans Maersk hefur varað markaðsaðila við að rekstrarumhverfið í flutningageiranum gæti orðið mjög krefjandi á næstu árum. Á uppgjörsfundi í morgun sagði hann að fjöldi nýrra flutningsskipa verði afhentur á næstu árum sem gæti leitt af sér offramboð í geiranum með tilheyrandi áhrifum á rekstrarniðurstöður félagsins.

Forstjóri danska skiparisans Maersk hefur varað markaðsaðila við að rekstrarumhverfið í flutningageiranum gæti orðið mjög krefjandi á næstu árum. Á uppgjörsfundi í morgun sagði hann að fjöldi nýrra flutningsskipa verði afhentur á næstu árum sem gæti leitt af sér offramboð í geiranum með tilheyrandi áhrifum á rekstrarniðurstöður félagsins.

„Þetta offramboð (e. overcapacity) mun setja þrýsting á afkomuna […] og gæti leitt til krefjandi tímabils á komandi árum. Við stöndum frammi fyrir aðstæðum sem krefjast skynsemi og fyrirhyggju,“ sagði Vincent Clerc, forstjóri Maersk, við Financial Times.

Hann sagði að framboð á markaðnum muni aukast um tæplega 12% á ári á næstu tveimur árum en að eftirspurn muni aukast í mun minna mæli.

Þá hafi aðstæður í Rauðahafinu vegna árasa Húta leitt til þess flest flutningsskip ferðist suður fyrir Afríku í stað þess að fara um Súez skurðinn með tilheyrandi áhrifum á flutningsverð. Clerc sagði að ástandið væri enn að þróast og að ekki væri víst að það hefði náð hámarki.

Falla frá endurkaupum og bréfin falla um 13%

Maersk kynnti ársuppgjör 2023 í morgun og tilkynnti um að félagið hefði ákveðið að falla frá fimmta fasa endurkaupaáætlunar sinnar að fjárhæð 1,6 milljarða dala vegna áðurnefndrar óvissu.

Hlutabréfaverð Maersk hefur fallið um 13% í fyrstu viðskiptum í dönsku Kauphöllinni í dag. Gera má ráð fyrir að þessi þróun skýri að stórum hluta nærri 5% lækkun á gengi hlutabréfa Eimskips í morgun.

Maersk skilaði 537 milljóna dala rekstrartapi á fjórða ársfjórðungi samanborið við 5,1 milljarðs dala rekstrarhagnað á sama tímabili ári áður.