Ítalska há­tísku­merkið Golden Goose hefur á­kveðið að hætta við hluta­fjár­út­boð og skráningu í Kaup­höllina í Mílanó.

Golden Goose, sem er meðal annars vin­sælt hjá stór­stjörnum eins og Taylor Swift og Selena Gomez, er í eigu breska eigna­stýringa­fyrir­tækisins Permira.

Sam­kvæmt Financial Times var hluta­fjár­út­boðið á leið með að verða eitt af há­punktum ársins en fjár­festar voru sam­mála um að bók­hald fyrir­tækisins væri frá­bært.

Á­skriftar­bókin fór á flug á fyrsta degi er Invesco skráði sig fyrir 100 milljónir evra. Fyrirtækið sóttist eftir um 600 milljónum evra í heildina en vonast var eftir mikilli umframeftirspurn.

Um­sjónar­aðilar út­boðsins greindu frá miklum á­huga lang­tíma­fjár­festa en á­hugi á evrópskum út­boðum jókst tölu­vert í síðustu viku þegar gengi ör­tölvu­fyrir­tækisins Raspberry Pi hækkaði um 50% á fyrsta við­skipta­degi í Lundúnum.

Í raun var staðan þó önnur og í ljós kom að þrátt fyrir mikinn á­huga fjár­festa voru afar fáir stofnana­fjár­festar að sýna út­boðinu áhuga.

Permira, sem setti Dr. Martens á markað 2021, á­kvað því að stíga var­lega til jarðar en sölu­þrýstingur á bréfum Dr. Martens hefur leitt til þess að gengið hefur fallið um 80% frá skráningu.

Sam­kvæmt FT mátti sjá fyrstu um­merki um að skráningin gæti farið úr­skeiðis í síðustu vikur þegar út­boðs­gengið var til­kynnt. Verð­möt sem fóru víða í fjöl­miðlum gáfu fé­laginu sögðu virði fé­lagsins um 3 milljarðar evra, eða um 2,5 milljarðar evra að frá­dregnum skuldum.

Markaðs­virði miðað við út­boðs­gengi gaf þó til kynna að virði fé­lagsins væri á bilinu 1,69 til 1,86 milljarðar evra. Um­sjónar­aðilar létu síðan fjár­festa vita að út­boðs­gengið yrði í lægsta verð­bilinu og hver hlutur yrði 9,75 evrur.

Golden Goose er hvað þekktast fyrir að selja „skítuga“ striga­skó sem kosta 500 evrur eða um 74 þúsund krónur á gengi dagsins.
Golden Goose er hvað þekktast fyrir að selja „skítuga“ striga­skó sem kosta 500 evrur eða um 74 þúsund krónur á gengi dagsins.

Um­sjónar­aðilar reyndu að róa markaðinn með því að segja að um­fram­eftir­spurn væri tölu­verð og segir FT enga á­stæðu til að draga þær stað­hæfingar í efa.

Að mati FT er þó ljóst að á­skriftar­bókin hafi verið upp­full af vogunar­sjóðum sem voru að hugsa skamm­tíma­gróða á­samt minni einka­fjár­festum og al­mennum fjár­festum. Invesco var því í raun eini stofnana­fjár­festirinn í út­boðinu.

Sam­hliða þessu er á­kvörðun Macron að blása til kosninga í Frakk­landi sögð hafa á­hrif en tölu­verður sölu­þrýstingur hefur verið á frönskum há­tísku­merkjum sem og frönskum skulda­bréfum.

Á­hyggjur um að er­lendir fjár­festar sem höfðu skráð sig fyrir hlutum myndu vilja losa þá strax jukust vegna stjórn­mála­ó­reiðu í Frakk­landi.

Að mati FT gerðu Permira og Golden Goose bæði fjár­festum og evrópska markaðinum greiða með því að hætta við hluta­fjár­út­boðið þar sem gengis­fall á fyrsta við­skipta­degi myndi hafa nei­kvæð á­hrif á komandi frumút­boð í álfunni.