Ítalska hátískumerkið Golden Goose hefur ákveðið að hætta við hlutafjárútboð og skráningu í Kauphöllina í Mílanó.
Golden Goose, sem er meðal annars vinsælt hjá stórstjörnum eins og Taylor Swift og Selena Gomez, er í eigu breska eignastýringafyrirtækisins Permira.
Samkvæmt Financial Times var hlutafjárútboðið á leið með að verða eitt af hápunktum ársins en fjárfestar voru sammála um að bókhald fyrirtækisins væri frábært.
Áskriftarbókin fór á flug á fyrsta degi er Invesco skráði sig fyrir 100 milljónir evra. Fyrirtækið sóttist eftir um 600 milljónum evra í heildina en vonast var eftir mikilli umframeftirspurn.
Umsjónaraðilar útboðsins greindu frá miklum áhuga langtímafjárfesta en áhugi á evrópskum útboðum jókst töluvert í síðustu viku þegar gengi örtölvufyrirtækisins Raspberry Pi hækkaði um 50% á fyrsta viðskiptadegi í Lundúnum.
Í raun var staðan þó önnur og í ljós kom að þrátt fyrir mikinn áhuga fjárfesta voru afar fáir stofnanafjárfestar að sýna útboðinu áhuga.
Permira, sem setti Dr. Martens á markað 2021, ákvað því að stíga varlega til jarðar en söluþrýstingur á bréfum Dr. Martens hefur leitt til þess að gengið hefur fallið um 80% frá skráningu.
Samkvæmt FT mátti sjá fyrstu ummerki um að skráningin gæti farið úrskeiðis í síðustu vikur þegar útboðsgengið var tilkynnt. Verðmöt sem fóru víða í fjölmiðlum gáfu félaginu sögðu virði félagsins um 3 milljarðar evra, eða um 2,5 milljarðar evra að frádregnum skuldum.
Markaðsvirði miðað við útboðsgengi gaf þó til kynna að virði félagsins væri á bilinu 1,69 til 1,86 milljarðar evra. Umsjónaraðilar létu síðan fjárfesta vita að útboðsgengið yrði í lægsta verðbilinu og hver hlutur yrði 9,75 evrur.
Umsjónaraðilar reyndu að róa markaðinn með því að segja að umframeftirspurn væri töluverð og segir FT enga ástæðu til að draga þær staðhæfingar í efa.
Að mati FT er þó ljóst að áskriftarbókin hafi verið uppfull af vogunarsjóðum sem voru að hugsa skammtímagróða ásamt minni einkafjárfestum og almennum fjárfestum. Invesco var því í raun eini stofnanafjárfestirinn í útboðinu.
Samhliða þessu er ákvörðun Macron að blása til kosninga í Frakklandi sögð hafa áhrif en töluverður söluþrýstingur hefur verið á frönskum hátískumerkjum sem og frönskum skuldabréfum.
Áhyggjur um að erlendir fjárfestar sem höfðu skráð sig fyrir hlutum myndu vilja losa þá strax jukust vegna stjórnmálaóreiðu í Frakklandi.
Að mati FT gerðu Permira og Golden Goose bæði fjárfestum og evrópska markaðinum greiða með því að hætta við hlutafjárútboðið þar sem gengisfall á fyrsta viðskiptadegi myndi hafa neikvæð áhrif á komandi frumútboð í álfunni.