Á síðustu tveimur árum hefur verð á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkað meira heldur en íbúðir í fjölbýli. Frá desember 2019 hefur sérbýli hækkað um ríflega 20% að raunvirði (31% að nafnvirði) en íbúðir í fjölbýli hafa hækkað um tæplega 16% að raunvirði (26% að nafnvirði). Hækkunarfasinn hefur verið langmestur síðustu tólf mánuði en á þeim tíma hefur sérbýli hækkað um ríflega 15% að raunvirði og íbúðir í fjölbýli um tæplega 12%. Fjallað er um málið í sérblaðinu Fasteignamarkaður, sem fylgdi Viðskiptablaðinu.

Fasteignamarkaður
Fasteignamarkaður

Velta á íbúðamarkaði á höfuðborgarsvæðinu nam 550 milljörðum króna á síðasta ári og hefur aldrei verið meiri. Árið 2020 nam veltan 500 milljörðum að núvirði. Á síðustu tveimur árum sker marsmánuður í fyrra sig úr en þá nam velta á íbúðamarkaði á höfuðborgarsvæðinu um 69 milljörðum króna. Að jafnaði nam veltan um 46 milljörðum króna á mánuði árið 2021. Í desember síðastliðnum var hún tæplega 47 milljarðar.

Þess má geta að á árinu 2018, þegar fasteignaverð hafði hækkað mikið, var veltan tæplega 416 milljarðar að núvirði. Á því herrans ári 2007, sem jafnan hefur skorið sig úr þegar kemur að þróun á fasteignamarkaði, var veltan á íbúðamarkaði á höfuðborgarsvæðinu tæplega 500 milljarðar króna að núvirði.

Næstum 9 þúsund samningar

Árið 2021 sker sig líka úr þegar kemur að fjölda kaupsamninga á íbúðamarkaði á höfuðborgarsvæðinu. Í fyrra nam fjöldinn ríflega 8.800 og hefur árlegur fjöldi kaupsamninga ekki verið meiri á síðustu sex árum. Næst flestir samningar voru gerðir í fyrra eða tæplega 8.500 samningar. Að meðaltali hafa verið gerðir 7.600 samningar á ári frá árinu 2015, fæstir árið 2017 eða ríflega 6.800.

Viðskiptablaðið hefur einnig reiknað út meðalupphæð á hvern samning á íbúðamarkaði á höfuðborgarsvæðinu. Í fyrra var hún ríflega 62 milljónir króna en til samanburðar var meðalupphæð á hvern samning árið 2015 rúmlega 44 milljónir að núvirði.

Nánar er fjallað um málið í Fasteignamarkaðnum , fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .