Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,35% á milli ágúst og september og hefur nú hækkað um 8,0% á ársgrundvelli, samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofunni. Verðbólgan jókst því um 0,3 prósentustig frá síðasta mánuði þegar hún mældist 7,7%.

Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 0,18% á milli mánaða og hefur nú hækkað um 7,7% á síðastliðnum tólf mánuðum. Til samanburðar mældist árshækkun vísitölunnar án húsnæðis 7,6% í ágúst.

Í tilkynningu Hagstofunnar segir að verð á fötum og skóm hafi hækkað um 3,7% á milli mánaða. Þá hafi kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði, svokölluð reiknuð húsaleiga, hækkað um 0,9%. Verð á flugfargjöldum til útlanda lækkaði hins vegar um 10,6%.

Verðbólgutölurnar eru nokkuð í takt við spár greiningardeilda bankanna. Greining Íslandsbanka spáði því að vísitalan myndi hækka um 0,4% á milli mánaða og að ársmánaða verðbólga myndi því aukast úr 7,7% í 8,0%. Hagfræðideild Landsbankans spáði því að vísitalan myndi hækka um 0,21% og að verðbólgan færi upp í 7,8%.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækkaði stýrivexti um 0,5 prósentur fyrir rúmum mánuði og eru meginvextir bankans nú 9,25%. Næsta boðaða vaxtaákvörðun Seðlabankans er á miðvikudaginn næsta, 4. október.