Vísitala neysluverðs hækkaði um 1,33% á milli janúar og febrúar og hefur nú hækkað um 6,6% á ársgrundvelli, samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofunni. Verðbólgan hjaðnaði því um 0,1 prósentustig frá síðasta mánuði þegar hún mældist 6,7%.

Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 1,33% á milli mánaða og hefur nú hækkað um 4,7% á síðastliðnum tólf mánuðum. Til samanburðar mældist árshækkun vísitölunnar án húsnæðis 5,2% í janúar.

Í tilkynningu Hagstofunnar kemur fram að vetrarútsölur séu víða gengnar til baka og hækkaði verð á fötum og skóm um 8,4% milli mánaða og verð á húsgögnum, heimilisbúnaði o.fl. hækkaði um 5,5% milli mánaða.

Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði, svokölluð reiknuð húsaleiga, hækkaði um 0,7% og annað vegna húsnæðis - sorphreinsun, holræsi og kalt vatn - hækkaði um 11%. Einnig hækkaði verð á mat- og drykkjarvörum um 0,7%.

Fram kemur að í stað þess að verðbreytingar á liðnum „044 Annað vegna húsnæðis“ voru teknar inn í janúar þá var það gert nú í febrúar þegar fyrsta greiðsla samkvæmt nýjum gjaldskrám fer yfirleitt fram.

Greiningardeildir Íslandsbanka og Landsbankans spáðu því báðar að verðbólga myndi hjaðna úr 6,7% í 6,1% milli mánaða. Greining Íslandsbanka spáði því um miðjan mánuðinn að vísitala neysluverðs myndi hækka um 0,8% í febrúar og Hagfræðideild Landsbankans spáði því að vísitalan myndi hækka um 0,89% milli mánaða.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað að halda stýrivöxtum óbreyttum í 9,25% á síðustu þremur vaxtaákvörðunarfundum. Næsta boðaða vaxtaákvörðun Seðlabankans er þann 20. mars næstkomandi.

Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika og nefndarmaður í peningastefnunefnd, greiddi atkvæði gegn tillögu seðlabankastjóra um óbreytta vexti á síðasta fundi nefndarinnar. Gunnar vildi lækka vexti um 0,25 prósentur, niður í 9,0%.