Eyríkið Sri Lanka stendur frammi fyrir verstu efnahagskreppu síðan landið fékk sjálfstæði frá Bretlandi árið 1948. Ranil Wickremesinghe, forsætis- og fjármálaráðherra Sri Lanka segir eyríkið þurfa að minnsta kosti 5 milljarða bandaríkja dala, sem jafngildir 650 milljörðum íslenskra króna, næstu sex mánuði til að greiða fyrir ýmsar nauðsynjavörur á borð við mat, lyf og eldsneyti. Skortur á þessum vörum hefur ýtt undir verðhækkanir í landinu en verðbólga mælist 39,1% á ársgrundvelli. Í maí var eyríkið, í fyrsta skiptið í sögunni, í vanskilum gagnvart alþjóðlegum skuldbindingum sínum. BBC greinir frá.
Eyríkið hefur þegar hafið björgunarviðræður við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Auk þess hafa Sameinuðu þjóðirnar heitið 48 milljónum dala, sem jafngildir 6,2 milljörðum íslenskra króna, til Sri Lanka fyrir nauðsynjavörum. Þjóðin mun einnig gera tilraun til að endursemja um 1,5 milljarða dollara fjárhagsaðstoð frá Kína sem jafngildir tæpum 195 milljörðum íslenskra króna.
Mikil hungursneyð ríkir í landinu og ætlar ríkisstjórnin að ráðast í átak til að útvega öllum fjölskyldum mat, óháð tekjum. Jafnframt mun Wickremesinghe kynna bráðabirgðafjárlög í næsta mánuði en þar stendur hann frammi fyrir þeirri áskorun að draga úr heildarútgjöldum hins opinbera á sama tíma og hann eykur félagslegar velferðargreiðslur. Nú þegar hefur ríkisstjórnin tilkynnt um tafarlausa hækkun virðisaukaskatts úr 8% í 12% en jafnframt eru áform um að hækka fyrirtækjaskatt í október á þessu ári úr 24% í 30%.