Hagvangur er ráðninga- og ráðgjafafyrirtæki sem stofnað var árið 1971 og býður þjónustu við flest það er snýr að mannauðsmálum. Hagvangur þjónustar árlega hundruð viðskiptavina við allt sem snýr að ráðningum og mannauðsráðgjöf.

Starfsfólk Hagvangs hefur á rúmum fimm áratugum unnið mikið brautryðjendastarf í ráðningum og ráðgjöf á Íslandi og starfsemin byggir á áralangri þekkingu og reynslu af atvinnulífinu, víðtæku tengslaneti og traustu orðspori.

„Kjarnastarfsemi fyrirtækisins eru ráðningar stjórnenda og sérfræðinga og við vinnum með atvinnulífinu, fyrirtækjum, stofnunum og félagasamtökum við að finna hæft fólk til starfa. Þannig leiðum við saman vinnuveitendur og öflugt starfsfólk,“ segir Geirlaug Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Hagvangs.

Eigendur Hagvangs, þau Geirlaug, Sverrir Briem og Hlynur Atli Magnússon, eru öll sammála um mikilvægi tengslanets. Sverrir bætir við:

„Tengslin og samskiptin við atvinnulífið eru mikilvægur hluti ráðgjafastarfsins. Starfið kallar á virk tengsl við stjórnendur í atvinnulífinu, tengsl sem byggja á trausti og heiðarleika. Á sama tíma reynir á að við séum vakandi fyrir þeim einstaklingum sem skara fram úr á einn eða annan hátt og gætu haft áhuga á að takast á við ný og stærri tækifæri.“

Hlynur leggur áherslu á hve fjölbreytt flóra fyrirtækja skipi viðskiptavinahóp Hagvangs, allt frá litlum félögum upp í stærstu fyrirtæki landsins, bæði í nýskapandi atvinnugreinum og rótgrónari geirum og um allt land að auki.

„Það sem gerir starfið okkar svo skemmtilegt er samstarfið við stjórnendur í atvinnulífinu og sú innsýn sem við fáum inn í ólík fyrirtæki í hverri viku,“ segir Hlynur, sem kom nýr í inn eigendahóp Hagvangs síðastliðið vor og hefur m.a. unnið mikið að ráðningum fyrir fyrirtæki í byggingariðnaði og hátækni. Hlynur er sterkur liðsmaður enda fyrirliði Fram í knattspyrnu til margra ára.

Þarf að huga að góðum stjórnarháttum, fjölbreytileika ásamt jafnréttissjónarmiðum

„Okkar ráðgjafar sitja einnig í tilnefningarnefndum vegna stjórnarsetu þar sem fram fer val og vandasamt mat á hæfni stjórnarfólks. Góðir stjórnarhættir, fjölbreytileiki ásamt jafnréttissjónarmiðum eru meðal þeirra þátta sem þarf að huga að. Við vinnum einnig mikið með hæfnisnefndum hjá hinu opinbera við ráðningar embættismanna og forstöðumanna hjá ríkinu, verkefni sem falla undir opinberar ráðningar,“ segir Geirlaug sem sjálf hefur reynslu af sveitarstjórnarstörfum og stjórnarsetu.

„Þó að flestar ráðningar eigi sér stað á höfuðborgarsvæðinu þá yfirsést mörgum sú verðmætasköpun sem á sér stað á landsbyggðinni. Við myndum vilja sjá fleiri opna augun fyrir þeim tækifærum sem þar leynast,“ segir Geirlaug. „Við erum afar stolt af því að starfa með þeim gríðarlega fjölda fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka sem leita til okkar og þakklát fyrir það mikla traust sem Hagvangur hefur notið í gegnum tíðina. Við munum áfram leggja mjög mikla áherslu á traust og trúnað við okkar viðskiptavini og þá einstaklinga sem leita til okkar,“ segir Geirlaug að lokum.