Gylfi Zoëga, nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabankans, gerir sértæka bindiskyldi á innflæði erlends fjármagns að umræðuefni í vikuritinu Vísbendingu sem kom út í dag. Ekki verður betur séð en að Gylfi gefi til kynna að Seðlabankinn gæti þurft að grípa til þess að binda erlent fjármagn ef ríkisstjórnin bregst ekki við eftirspurnarþenslu með auknu aðhaldi ríkisfjármála.
Hann segir að í kjölfar fjármálahrunsins hafi mótast hugmyndir um hagstjórnarviðbrögð við innlendri eftirspurnarþenslu. Í stuttu máli felist þær í að seðlabankar bregðist við þeim aðstæðum þegar verðbólga fer vaxandi, fullri framleiðslugetu hagkerfis er náð og „hóflegar vaxtahækkanir“ nægja ekki, þá komi ríkisfjármálin til hjálpar. Ríkið geti frestað framkvæmdum eða minnkað hallarekstur með skattahækkunum.
„Ef slík viðbrögð láta á sér standa og peningastefnan þarf ein að hamla eftirspurn þá skapast sú hætta að kvikt fjármagn leiti inn í krónuhagkerfið – að fjárfestar kaupi innlend skuldabréf til þess að hagnast á vaxtamun. Unnt er að bregðast við innflæði til skamms tíma með því að seðlabanki kaupi gjaldeyri á markaði og komi þannig í veg fyrir gengisstyrkingu,“ skrifar Gylfi.
„En ef slíkt reynist of kostnaðarsamt þá þarf að grípa til annars stjórntækis peningastefnu sem er „sértæk bindiskylda“ á fjárfestingar erlendra aðila í skráðum innlendum skuldabréfum. Þetta stjórntæki var innleitt um vorið 2016 en hefur verið núllstillt undanfarin misseri.“
Janvel AGS opnari fyrr beitingu hafta
Seðlabankinn setti á sérstöku bindiskylduna á fjármagnsinnstreymi á skuldabréfamarkað og í hávaxtainnstæður í júní 2016. Umrætt hagstjórnartæki felur í sér að binda hluta innstreymis í eitt ár á reikningi sem beri enga vexti. Bindingarhlutfallið var lækkað úr 40% í 20% í árslok 2018 og síðan lækkað niður í núll prósent í mars 2019.
Gylfi segir orðið „fjármagnshöft“ hafa neikvæða merkingu í huga margra sem tengja hugtakið gjarnan við innflutningshöft fjórða áratugarins hér á landi og allt fram á þann sjöunda. Hins vegar aðhyllist sífellt fleiri hagfræðingar þá skoðun að undir ákveðnum kringumstæðum þurfi seðlabankar að geta heft flæði kviks fjármagns, þ.e. kaup og sölu á innlendum skuldabréfum. Hann ítrekar að í þessu samhengi sé ekki átt við erlenda fjárfestingu né vöruviðskipti heldur kvikar hreyfingar fjármagns inn á og út af skuldabréfamarkaði.
Gylfi vísar í hagfræðinga sem hafi haldið því fram að erfitt sé að viðhalda sjálfstæðri peningastefnu og frjálsu fjármagnsflæði samtímis. Að sögn Gylfa var niðurstaða ráðstefnu sem var haldin hér á landi sumarið 2018, um lítil opin hagkerfi með sjálfstæða peningastefnu, að nauðsynlegt væri að hafa ekki aðeins vexti sem stýritæki heldur þurfi einnig að vera hægt að bregðast við kvikum fjármagnshreyfingum með öðrum tækjum á borð við sértæku bindiskylduna.
„Jafnvel Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er nú opnari fyrir beitingu takmarkaðra fjármagnshafta.“
Reynsla af misheppnaðri peningastefnu hrunsáranna
Gylfi, sem er prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, setur fram dæmi um hættuna sem stafni af kvikum fjármagnshreyfingum.
„Ímyndum okkur að peningastefnu sé beitt til þess að ná innlendri verðbólgu niður á næstu mánuðum. Slíkt felur í sér hærri vexti og ef vextir í helstu viðskiptalöndum hækka ekki samsvarandi þá myndast vaxtamunur við útlönd. Slíkt kallar á vaxtamunarviðskipti, fjárfestar taka þá lán í lágvaxtamyntum og fjárfesta í krónuskuldabréfum sem hækkar gengi krónunnar. Gengishækkunin eykur hagnað fjárfestanna enn meira og fleiri fjárfestar bætast í hópinn. Þeir hoppa þá á mynt sem er á uppleið og hagnast yfirleitt meira á gengishækkunin en vaxtamuninum.“
Við hækkun gengisins verði innflutningur ódýrari og neytendur auka neyslu sína og útgjöld sem veldur þá viðskiptahalla og versnandi erlendri eignastöðu þjóðarbúsins.
„Aðstreymi erlends fjármagns getur sömuleiðis valdið því að útlán vaxi innanlands og verð á hlutabréfum og fasteignum hækki. Mikill þrýstingur myndast á það að útlán innlendra banka verði í erlendum gjaldmiðlum eins og var fyrir 2008. Þeir sem muna reynsluna af misheppnaðri peningastefnu hrunsáranna geta síðan botnað þessa sögu.“
Seðlabankinn lýsti því á sínum tíma að markmiðið með upptöku bindiskyldunnar væri að draga úr áhættu sem gæti fylgt óhóflegu fjármagnsinnstreymi og stuðla að skilvirkari miðlun peningastefnunnar. Bindiskyldan eigi að draga úr áhættu sem mögulega tengist innstreymi í formi vaxtamunarviðskipta, þ.e. viðskipta sem hafa þann tilgang að reyna að hagnast á vaxtamun á milli Íslands og annarra landa. „Með því að binda hluta innstreymis í eitt ár á reikningi sem ber enga vexti er dregið úr ábata viðskiptanna og eru áhrifin því meiri sem fjárfestar horfa til skemmri tíma,“ segir í Peningmálum frá nóvember 2017.