Fimm þing­menn Sjálf­stæðis­flokksins hafa lagt fram þing­manna­frum­varp um að fella brott alls kyns handa­hófs­kennd aldurs­tak­mörk úr lögum.

„Víða í lögum er að finna svo­kölluð aldurs­mörk, þ. e. skil­yrði um að ein­stak­lingur hafi náð á­kveðnum aldri áður en hann getur notið á­kveðinna réttinda, öðlast á­kveðin leyfi o. s. frv. Þá er einnig að finna efri aldurs­mörk, þ. e. um há­marks­aldur ein­stak­linga svo að þeir geti öðlast á­kveðin leyfi eða réttindi,” segir í greinar­gerð en Berg­lind Ósk Guð­munds­dóttir þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins er fyrsti flutnings­maður frum­varpsins.

Fimm þing­menn Sjálf­stæðis­flokksins hafa lagt fram þing­manna­frum­varp um að fella brott alls kyns handa­hófs­kennd aldurs­tak­mörk úr lögum.

„Víða í lögum er að finna svo­kölluð aldurs­mörk, þ. e. skil­yrði um að ein­stak­lingur hafi náð á­kveðnum aldri áður en hann getur notið á­kveðinna réttinda, öðlast á­kveðin leyfi o. s. frv. Þá er einnig að finna efri aldurs­mörk, þ. e. um há­marks­aldur ein­stak­linga svo að þeir geti öðlast á­kveðin leyfi eða réttindi,” segir í greinar­gerð en Berg­lind Ósk Guð­munds­dóttir þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins er fyrsti flutnings­maður frum­varpsins.

Í stað þess að vera með aldurs­tak­mörk á margra ára bili verður að miða öll aldurs­skil­yrði við 18 ára aldur sem er sjálf­ræðis- og fjár­ræðis­aldur.

„Flutnings­menn fá ekki séð hvaða rök standi til þess að lög­gjöf feli víða í sér handa­hófs­kennd aldurs­mörk og á­skilji til að mynda á einum stað að ein­staklingar verði að vera orðnir 25 ára til þess að full­nægja skil­yrðum laga en á öðrum þyki rétt að miða við 20 ára aldur, í stað þess að ein­fald­lega sé miðað við sjálf­ræðis­aldur í öllum til­vikum,“ segir í greinar­gerð.

Áfengiskaup, ættleiðingar, dómarar ofl.

Með frum­varpinu er einnig lagt til að aldurs­há­mark laga verði fellt úr gildi þar sem það á við. Að baki þeirri til­lögu liggur sú hugsun að ekki sé nauð­syn­legt að tak­marka réttindi við á­kveðinn aldur heldur beri mun frekar að líta til annarra þátta ef nauð­syn­legt þykir að aftur­kalla réttindi eða tak­marka leyfis­veitingar til eldra fólks, svo sem heilsu, færni og annarra at­riða sem hægt er að meta á hlut­lægan máta.

Meðal þess sem lagt er til eru breytingar á á­fengis­lögum um að til þess að fá út­gefið vín­veitinga­leyfi þurfi um­sækjandi að vera orðinn 20 ára og ef um­sækjandi er fé­lag með ó­tak­markaðri á­byrgð skulu eig­endur og fram­kvæmda­stjóri þess vera orðnir 20 ára.

„Lagt er til að á­kvæðið verði fellt brott, enda sé ekki til­efni til að skil­yrða út­gáfu leyfis til smá­sölu á­fengis við sér­stakan aldur um­fram sjálf­ræðis­aldur. Þá sé ekki til­efni til að setja sér­stakt aldurs­skil­yrði fyrir eig­endur og fram­kvæmda­stjóra fé­lags sem er um­sækjandi leyfis til smá­sölu á­fengis.“

Þá er einnig lagt til að á­fengis­kaupa­aldurinn verði lækkaður úr 20 ára í 18 ára.

Í frum­varpinu eru einnig lagðar til alls kyns breytingar á aldurs­skil­yrðum Hæsta­réttar- og Lands­réttar­dómara í sam­ræmi við breytingar sem gerðar voru um héraðs­dómara árið 2021. Þótt aldurs­skil­yrði hafi verið fellt brott er ó­lík­legt að aðili sem er 18 ára gamall yrði metinn hæfur sem héraðs­dómari, enda eru gerðar aðrar kröfur í lögunum um að við­komandi hafi lokið em­bættis­prófi eða grunn­námi á­samt meistara­prófi.

Það sama á við um hæfi Hæsta­réttar og Lands­réttar­dómara og því ó­þarfi að hafa aldurs­skil­yrði en dómarar þurfa að vera 35 ára eða eldri eins og staðan er núna.

Þá er lagt til breytingar á lögum um hrepp­stjóra um að engan megi skipa hrepp­stjóra nema þann sem náð hafi 21 árs aldri. Lagt er til að aldurs­skil­yrði á­kvæðisins verði breytt í 18 ára aldur.

Einnig er lagt til breytingar á lögum um Hús­næðis­stofnun ríkisins, sem segir að eig­andi inn­stæðu, sem nemur hærri fjár­hæð en 30.000 kr., eigi þess kost að fá inn­stæðu sína greidda þegar hann hefur náð 26 ára aldri. Lagt er til að aldurs­skil­yrði á­kvæðisins verði breytt í 18 ára aldur.

Kafarar geta ekki fengið út­gefið skír­teini sem heimilar kofun í at­vinnu­skyni fyrr en þeir eru 20 ára, lagt er til að því verði breytt.

Í dag má ekki skipa stefnu­vott nema hann sé orðinn 25 ára, dóm­túlkar þurfa að vera 20 ára, skír­teini leið­sögu- og hafn­sögu­manna má einungis gefa út til þeirra sem eru á aldrinum 25 til 69 ára.

Ein­staklingar þurfa að vera 25 ára til að ætt­leiða en mega með sér­stöku leyfi ætt­leiða eftir 20 ára aldurinn. Skot­vopna­leyfi miðast við 20 ára aldurinn og lög­reglu­menn mega ekki vera eldri en 65 ára.

Verði frum­varpið að lögum miðast allt þetta við 18 ára aldur og hæfni.