Tilkynnt var um óskuldbindandi viljayfirlýsingu John Bean Technologies Corporation (JBT) varðandi mögulegt tilboð í öll hlutabréf Marels þann 24. nóvember síðastliðinn og að valkvætt yfirtökutilboð yrði lagt fram á seinni stigum.

Í tilkynningu frá stjórn Marel í morgunsárið segir að þau hafi lagt mat á yfirlýsinguna og samþykkt einróma að hún væri ekki í þágu hagsmuna hluthafa Marel. Hún taki hvorki tillit til innra virðis rekstrar Marel né þeirrar áhættu sem fælist í framkvæmd viðskiptanna.

Fyrirhugað verð samkvæmt óskuldbindandi viljayfirlýsingunni yrði 3,15 evrur á hlut fyrir allt útistandandi hlutafé í Marel. JBT myndi greiða 25% í reiðu­fé og 75% í formi eigin bréfa fyrir Marel og hlut­hafar Marel myndu þá eignast 36% hlut.

Eyrir Invest, stærsti hluthafi Marels með 24,7% hlut, hafði lagt fram óafturkallanlega yfirlýsingu um að samþykkja tilboðið yrði það lagt fram í tengslum við viljayfirlýsinguna.

„Yfirlýst stefna Marel er skýr hvað varðar ytri vöxt og tækifæri til frekari samþjöppunar (e. consolidation) innan geirans eins og framkvæmd stefnu félagsins ber vitni um. Í samræmi við hlutverk sitt og ábyrgð er stjórn Marel tilbúin að leggja mat á vel ígrundaðar tillögur sem endurspegla að fullu virði Marel,“ segir í tilkynningunni.