Eyþór Arnalds frambjóðandi í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðismanna sem fram fer í dag eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá , segir rétt að hann hafi á sínum tíma verið hlynntur því að flugbrautirnar færu úr Vatnsmýrinni. Það hafi þó verið á þeirri forsendu að Reykjavíkurflugvöllur yrði áfram á svipuðu svæði í borginni.

,,Við erum höfuðborg landsins og við verðum að bera ábyrgð á því að innanlandsflugið er í raun okkar lestarkerfi, og það verður að vera umhverfi sem innanlandsflug getur þrifist í," segir Eyþór sem segir að meðan ekki er í boði jafngóður valkostur fyrir flugvallarstæði þá verði hann að vera áfram á sínum stað.

,,Árið 2001, þá var Trausti Valsson skipulagsfræðingur með hugmynd um að flugbrautirnar myndu fara út í Skerjafjörð, líkt og hann er í Eyjafirði, sem hefði þýtt að flugvöllurinn væri áfram í Reykjavík. Þessi hugmynd sem ég hreyfst af á sínum tíma er ekki til skoðunar lengur.

Hinar hugmyndirnar gera ráð fyrir að flugið fari út úr borginni og það er í mínum huga alveg ljóst að meðan það er engin önnur hugmynd til um að tryggja flugið á góðum stað í borginni, þá verður flugvöllurinn áfram á sínum stað. Mun ég því beita mér fyrir því ef ég fæ kjör að trygga flugvöllinn í sessi."