Mark Zuckerberg, forstjóri og stofnandi Facebook, seldi hlutabréf í móðurfélaginu Meta fyrir tæplega 185 milljónir dala eða um 26 milljarða króna í nóvember. Þetta er í fyrsta sinn sem hann selur hlut í netrisanum frá því í nóvember 2021.

Sjóður í eigu Zuckerberg og félög á hans vegum sem veita fjárveitingar til góðgerðarmála og stjórnmálahreyfinga seldu samtals um 682 þúsund hluti í Meta í síðasta mánuði samkvæmt gögnum sem Verðbréfaeftirlit Bandaríkjanna (SEC) birti á dögunum.

Í umfjöllun Bloomberg segir að Zuckerberg hafi reglulega minnkað við hlut sinn í Meta á undanförnum áratugi. Hann seldi hins vegar ekki einn einasta hlut í fyrra sem má ef til vill rekja til þess að hlutabréfaverð félagsins lækkaði um meira en helming árið 2022.

Gengi hlutabréfa Meta hefur hins vegar rétt úr kútnum í ár og alls hækkað um meira en 150% frá árslokum 2022.

Zuckerberg og góðgerðarfélagið hans, The Chan Zuckerberg Initiative, seldu hlutabréf í Meta árið 2021, þegar gengi félagsins var í hæstu hæðum, fyrir meira en 1 milljarð dala. Zuckerberg og eiginkona hans, Priscilla Chan, hafa lýst því yfir að þau hyggist gefa 99% af auði sínum til góðgerðarmála.

Hinn 39 ára gamli Zuckerberg á enn um 13% hlut í Meta sem myndar bróðurpartinn af 118 milljarða dala áætluðum auðæfum hans samkvæmt Bloomberg.