Mun fleira starfsfólk álítur að #Metoo umræðan hafi haft jákvæð áhrif á vinnustað sinn en neikvæð. Það er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum könnunarinnar Kynin og vinnustaðurinn 2022, samstarfsverkefnis fyrirtækisins Empower, sem sérhæfir sig í jafnrétti og fjölbreytni á vinnustöðum, Maskínu, Háskóla Íslands, Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins. Hins vegar mælist talsverð óánægja meðal beggja kynja þegar spurt er um viðbrögð stjórnenda á vinnustöðum sem tengjast #Metoo. Niðurstöðurnar varpa ljósi á upplifun kynja á ýmsum þáttum sem tengjast vinnustaðamenningu og með þeim er hægt að sjá hvort og hvernig kyn og kynhneigð skiptir máli á vinnustöðum og með hvaða hætti óréttlæti birtist.
Meirihluti starfsfólks telur áhrif #Metoo jákvæð
Almennt álítur meirihluti starfsfólks að #Metoo umræðan hafi haft fremur eða mjög jákvæð áhrif á vinnustaðinn eða 64,7% kvenna og 61% karla. Á hinn bóginn töldu 10,1% karla og 4,6 % kvenna að #Metoo umræðan hefði haft fremur eða mjög neikvæð áhrif á sinn vinnustað. Neikvæðni gagnvart áhrifum #Metoo stigjókst eftir aldri og var mest í elsta aldurshópi karla og kvenna eða 60 ára og eldri. Í þeim hópi töldu þó helmingi fleiri karlar eða 13,5% umræðuna hafa haft fremur eða mjög neikvæð áhrif á vinnustaðinn en 6,5% kvenna.
Þegar við grípum til aðgerða vandast málin svo enn frekar. Það birtist með nokkuð skýrum hætti í könnuninni því þótt jákvæðni gagnvart áhrifum #Metoo sé almennt mikil telja 22,8% kvenna eða tæpur fjórðungur að stjórnendur hafi tekið illa á málum tengdum #Metoo og tæpur fimmtungur karla eða 17,4% karla. Niðurstöður sem hljóta að vekja stjórnendur til umhugsunar.
Upplýst ákvarðanataka byggð á gögnum
Umræðan sem #Metoo byltingin hratt af stað árið 2017 virðist hvergi nærri þögnuð og hefur hún kallað á nýjar nálganir og lausnir í atvinnulífinu – ekki síst á meðal stjórnenda. #Metoo byltingunni var einmitt hrundið af stað af baráttukonunni Tarana Burke og markmið hennar er að vekja athygli á umfangi kynferðislegrar áreitni og ofbeldis, að valdefla þolendur með því að vera fjöldahreyfing og síðast en ekki síst að rjúfa þau kerfi sem viðhalda ofbeldi og áreitni. Þetta eru háleit markmið og má segja að #Metoo hafi verulega hrist upp í gamla valdakerfinu.
Neikvæðni gagnvart áhrifum #Metoo stigjókst eftir aldri og var mest í elsta aldurshópi karla og kvenna eða 60 ára og eldri.
Við Íslendingar þykjum vera leiðandi í heiminum er varðar jafnréttismál, en við höfum þó upplifað kyrrstöðu í kynjahlutföllum í valdastöðum í atvinnulífinu í áraraðir. Það er alveg ljóst að hugmyndir okkar um vald, leiðtoga og stjórnendur þurfa að breytast. Hugmyndir sem við erum oft á tíðum ómeðvituð um, því öll erum við afsprengi samfélags þar sem einsleitur hópur gagnkynhneigðra hvítra karla hefur farið með helstu völd og áhrif. Með fjölbreyttari hópi stjórnenda og leiðtoga koma nýjar áherslur, nýjar leiðir, aukin víðsýni og samkennd.
Við viljum flest að fólk fái jöfn tækifæri óháð kyni, kynþætti og kynhneigð, en rannsóknir sýna þó, svo ekki verður um villst, að þessir þættir hafa mikil áhrif á framgang fólks í starfi og á upplifun þeirra á vinnustað. Við þurfum því að horfa á gögn en ekki láta eigin tilfinningu og sjónarhorn á lífið ráða för ef ætlunin er að meta aðstæður og upplifun starfsfólks á vinnustöðum. Við megum ekki falla í þá gryfju að láta ómeðvitaða fordóma og hlutdrægni leiða okkur á villigötur.
Aðgerðarleysi er ekki svarið
Í könnuninni kemur einnig skýrt fram að karlar og konur upplifa vinnustaðinn ólíkt – konum í óhag. Þær upplifa frekar að þurfa að sanna sig meira en aðrir, að dómgreind þeirra sé dregin í efa og að talað sé niður til þeirra. Það sama má segja um hinsegin fólk sem upplifir fleiri hindranir í viðhorfi og samskiptum á vinnustaðnum en gagnkynhneigt fólk. Því getum við fullyrt að upplifun starfsfólks af vinnustaðamenningu er ólík eftir hópum, og mismunun gagnvart ákveðnum hópum á sér stað. Þetta eru einnig hóparnir sem verða frekar fyrir kynferðislegri áreitni samkvæmt könnuninni.
Það er stjórnendum mikilvægt að ná yfirsýn á stöðunni á eigin vinnustað, setja sér mælanleg markmið og bregðast við niðurstöðum með sannreyndum aðferðum.
Í upplýsingum Vinnueftirlitsins um forvarnir á vinnustöðum segir að helsta einkenni vinnustaða, þar sem kynbundin áreitni fær að þrífast, sé sú að ekki er tekið á málum og leitast er við að yfirfæra vandann á einstaklinga í stað þess að tekið sé á því sem skapar vandann – menningu vinnustaðarins. Aðgerðarleysi og afneitun á upplifun starfsfólks á vinnustöðum hefur ekki reynst gagnlegt tæki þegar kemur að #Metoo, og umræðan virðist hvergi nærri þögnuð.
Ljóst er að meirihluti starfsfólks telur #Metoo ekki vandann heldur vinnustaðamenninguna sem skapar fólki ójöfn tækifæri og réttlætir mismunun gagnvart sumum hópum. Það að óréttlætið komist í umræðu og þess sé krafist að unnið sé gegn því er ekki rót vandans, heldur óréttlætið sjálft. Það er því miður þannig að til skemmri tíma eru engir sigurvegarar í #Metoo málum sem afhjúpast hafa hjá fyrirtækjum. Viðmiðin eru þó að breytast og til lengri tíma skapar þessi nýi veruleiki vonandi betri og heilbrigðari vinnustaðamenningu, þar sem þolendur njóta vafans.
Heilbrigð vinnustaðamenning er mikilvægasta verkefnið
Niðurstöður könnunarinnar Kynin og vinnustaðurinn er hægt að nálgast í heild á síðunni empower. is. Í þeim er að finna ýmislegt sem stjórnendur ættu að hafa gagn. Það er stjórnendum mikilvægt að ná yfirsýn á stöðunni á eigin vinnustað, setja sér mælanleg markmið og bregðast við niðurstöðum með sannreyndum aðferðum.
Það ætti að vera jafn sjálfsagt hverjum vinnustað að fyrirbyggja áreitni, mismunun og ofbeldi með sama hætti og unnið er að slysavörnum. Vandamál skrifast ekki á starfsfólk sem verður fyrir slysi, eða í tilfelli #Metoo; áreitni, mismunun eða óréttlæti, heldur liggur ábyrgðin hjá vinnustöðunum sjálfum og þar gegna stjórnendur lykilhlutverki. Það er til mikils að vinna að bregðast rétt við og skapa aðstæður sem stuðla að góðri vinnustaðamenningu þar sem mismunun, kynbundin áreitni og ofbeldi fær ekki þrifist. Að byggja upp heilbrigða vinnustaðamenningu er eitt mikilvægasta verkefni nútímafyrirtækja.
Höfundur er stofnandi og eigandi Empower.