Fáir hafa setið lengur á Alþingi en Steingrímur J. Sigfússon en hann sagði skilið við stjórnmálin árið 2021 eftir tæplega fjögurra áratuga þingsetu. Óhætt er að segja að Steingrímur hafi verið á meðal þeirra sem mótmæltu einkavæðingu ákveðinna ríkisstofnana harðlega á tímabilinu.
„Það að endurskoða verkaskiptingu hins opinbera og einkamarkaðarins er alveg eðlilegt viðfangsefni á hverjum tíma, hverju er best fyrirkomið hvar. En það sem ég tel að hafi verið mestu veikleikana og hafi reynst Íslendingum verst, það er þegar einkavæðingin hefur verið keyrð áfram nánast sem trúarbrögð, að það hlyti alltaf að vera gott og rétt að færa rekstur frá hinu opinbera til einkamarkaðarins.
Hættan sem í því er fólgin líka er að þá vandi menn sig ekki, geri þetta ekki einu sinni vel, vegna þess að tilgangurinn helgar þá meðalið í hugum þeirra sem þannig nálgast viðfangsefnið og við höfum skelfilega reynslu af því,“ segir Steingrímur.
„Ég held að dæmi um það sem gekk illa og miklu meira en það sé þessi hroðalega einkavæðing bankanna í byrjun aldarinnar. Það mætti hafa langt mál um hvernig var að því öllu staðið, og það hafa nú verið gerðar rannsóknarskýrslur um það, en það hljóta að standa upp úr sem dæmi um herfilegustu mistökin og herfilegustu afleiðingarnar af misráðinni einkavæðingu.“
Það sé þó ekki þar með sagt að ríkið hefði alltaf átt að eiga umrædda banka, það hefði einfaldlega þurft að vanda til verka. Honum lítist þó á þá stöðu sem hafi teiknast upp að ríkið eigi einn kjölfestubanka, Landsbankann.
Dæmi um afhendingu í stað sölu
Dæmin séu einnig víðar en hann nefnir til að mynda einkavæðingu Landssíma Íslands. Það hafi mistekist í fyrri tilraun en í seinni tilraun hafi hann ásamt öðrum barist fyrir því að grunnnetið yrði ekki látið fylgja með, sem gekk ekki eftir. Nokkrum árum síðar fyrirtækið sjálft skipt sér upp í Símann og Mílu.
„Þannig að það var ekki einu sinni að mínu mati komið heiðarlega fram í því, mönnum lá einhvern veginn svo mikið á að einkavæða og selja að tilgangurinn helgaði meðalið.“
Einnig mætti nefna einkavæðingu Sementsverksmiðjunnar, Áburðarverksmiðjunnar og SR-mjöls en í þeim tilvikum væri nær að tala um afhendingar frekar en sölu. Þá hafi það verið slæm ákvörðun að leggja Ríkisskip niður en það hafi haft mjög neikvæð áhrif á flutningskostnað og þjónustu við landsbyggðina.
„Ríkið á þar af leiðandi ekki að sleppa hendinni af eða hætta einhverjum rekstri ef það hefur svo stórkostlega neikvæð áhrif á almenning og íbúa heilu landshlutanna eða allrar landsbyggðarinnar. Ríkið hefur ríkar skyldur og má ekki hlaupa frá þeim, jafnvel þótt menn hafi gaman af því að monta sig af því að hafa lagt niður einhvern ríkisrekstur.“
Nánar er rætt við Steingrím í Frjálsri verslun. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.