Íslendingar eru nú að endurupplifa margt sem vonir höfðu staðið til að væri að baki.

Íslenskt hagkerfi er á klassískum yfirsnúningi. Illa gengur að ná niður verðbólgu enda Seðlabankinn einmana í þeirri baráttu. Í yfir 7% hagvexti er umtalsverður halli hjá hinu opinbera, einkaneysla í örum vexti, viðskiptahalli, krónan að gefa eftir og samið um launahækkanir sem Seðlabankinn telur umfram svigrúm í hagkerfinu.

Engu síður stefnir í upplausnarástand vegna verkfalla þar sem stjórnendur Eflingar vilja ekki gefa sínu félagsfólki tækifæri til að kjósa um þessar sömu launahækkanir og vilja meira.

Því miður er fátt af þessu nýtt í íslenskri hagsögu. 

„Harðvítugar vinnudeilur og verkföll skapa ástand, sem líkist engu fremur en innanlandsófriði. Allar skynsamlegar umræður um vandamálin verða að engu, réttur valdsins ríkir einn í þjóðfélaginu og getur af sér hatur og illdeilur, sem grafa undan heilbrigði þjóðskipulagsins og réttlætistilfinningu þjóðarinnar. Flestir hljóta að vera sammála um, að mikla nauðsyn ber til, að Íslendingar læri af þessari sorglegu og dýrkeyptu reynslu að skapa sér lög og reglur um meðferð vinnudeilna, sem forðað geti slíkri sóun andlegra og efnahagslegra verðmæta í framtíðinni.“

Klausuna hér að ofan skrifaði Jóhannes Nordal árið 1955, þá hagfræðingur Landsbankans, en síðar seðlabankastjóri um áratugaskeið, í kjölfar sex vikna harðra verkfalla sem lauk með kjarasamningum þar sem samið var um umtalsverðar launahækkanir.

Jóhannes bætti við eftirfarandi varnaðarorðum: 

„Mjög vafasamt er, hvern ávinning launþegar munu hafa af hinum almennu kauphækkunum. Ef dæma á eftir reynslu fyrri ára, er hætt við, að mestallar kjarabæturnar verði að engu vegna hækkaðs verðs á vörum og hvers kyns þjónustu. [...] Framleiðsla þjóðarinnar ákveður, hverjar raunverulegar tekjur hennar eru, og sé kaupgetan meiri en hún segir til um, hefur það í för með sér óréttlátari skiptingu þjóðarteknanna, rýrnun verðgildis peninganna, gjaldeyrisskort og önnur þjóðfélagsmein. [...] Í fjölmörgum löndum hefur reynslan sannað, að verðbólga hefur skaðað launþega meira en flestar aðrar stéttir. Hvort takast á að koma á jafnvægi í efnahagsmálum Íslendinga og skapa grundvöll heilbrigðrar fjárfestingar og framleiðsluaukningar, veltur mjög á því, að launþegar skilji þessa staðreynd. Það er kaldhæðni, ef þeir reynast fúsari en atvinnurekendur að hrinda, af stað nýrri verðbólguöldu, því að reynslan sýnir, að hún muni verða launþegum miklu dýrkeyptari.“

Of margt í skrifum Jóhannesar á jafn vel við í dag og fyrir tæpum sjö áratugum. Enn er verið að reyna að toga sig upp á hárinu með launahækkunum á meðan lítið fer fyrir umræðu um þá verðmætasköpun sem launahækkanirnar eiga að byggja á. Líkt og Viðskiptablaðið sagði frá nýverið hefur lítið þokast í markmiðum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að fjölga verkfærum ríkissáttasemjara í takt við það sem þekkist á Norðurlöndunum.

Lögin um vinnudeilur eru að stofninum til frá árinu 1938 og hlýtur að vera tímabært að endurskoða þau í ljósi þeirrar óvissu sem komin er upp um raunverulegar valdheimildir ríkissáttasemjara í kjölfar dóms Landsréttar í vikunni.

Þá geta stjórnvöld vart leyft því að viðgangast til lengdar að verkfall stéttar, sem er sögð með 900 þúsund krónur í meðallaun, ógni lífi og heilsu fólks á sama tíma og ekkert bendir til þess að það þokist í samkomulagsátt í kjaradeilunni.

Leiðarinn birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 16. febrúar.