Nú liggur fyrir heildarfjárhæð veiðigjalds frá fyrra ári, tæpir 10,2 milljarðar króna. Það er harla fátt sem kemur þar á óvart.

Nú liggur fyrir heildarfjárhæð veiðigjalds frá fyrra ári, tæpir 10,2 milljarðar króna. Það er harla fátt sem kemur þar á óvart.

Í stuttu máli má segja að veiðigjald nemi um 33% af afkomu fiskveiða, sem reiknað er til krónu á kílógramm landaðs óslægðs afla. Þá krónutölu þurfa sjávarútvegsfyrirtækin að greiða fyrir að landa hverju kílói af óslægðum fiski. Hversu mikið magn veiðist hefur því veruleg áhrif á heildarfjárhæð veiðigjalds frá einu ári til annars. Þegar vel árar verður fjárhæðin hærri og þegar illa gengur, til dæmis við loðnubrest eða kvótaskerðinu, er óhjákvæmilegt að hún lækki.

Umræðan er hinsvegar ekki jafn einföld og það getur verið allt að því sársaukafullt að hlusta á fólk misskilja þessa skattheimtu, útreikning hennar og tengsl við afkomu og magn. Fólk sem ætti að vita betur miðað við hve mikið það tjáir sig um málefnið.

Fyrir þessa milljarða mætti til dæmis reka alla háskóla hér á landi og rannsóknarstarfsemi þeirra, löggæslu, dómstóla, Ríkisútvarpið og eiga sennilega eftir afgang fyrir Þjóðarhöllinni.

Sumir láta eins og þetta sé það eina sem sjávarútvegur greiði í sameiginlega sjóði landsmanna. Ekki liggur fyrir hvert skattspor greinarinnar var í fyrra en á árinu 2022 var það 85 milljarðar króna. Veiðigjaldið var 9% af þeirri fjárhæð. Fyrir þessa milljarða mætti til dæmis reka alla háskóla hér á landi og rannsóknarstarfsemi þeirra, löggæslu, dómstóla, Ríkisútvarpið og eiga sennilega eftir afgang fyrir Þjóðarhöllinni.

Það er líka árlegur söngur að tekjur ríkisins af sjávarútvegi standi ekki undir kostnaði ríkisins við það að halda úti kerfum sjávarútvegs. Það er sérkennileg stærðfræði. Hlutur sjávarútvegs í rekstri Hafrannsóknastofnunar, Fiskistofu, Landhelgisgæslunnar, samgöngustofu og öllu öðru - meira að segja starfsmönnum ráðuneytisins - er um 7,9 milljarðar króna, samkvæmt mati ráðuneytis. Eftir standa þá nokkrir tugir milljarða af beinu framlagi sjávarútvegs til samneyslunnar.

Þið megið ráða hvað þið gerið við það.