Í liðinni viku sagði Morgunblaðið frá því að verulegur kostnaðarauki sé að verða í tengslum við svokallaðan samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og fyrirhugaðar framkvæmdir við Borgarlínu. Skýrslan sem vísað er til hefur að því er virðist ekki verið birt, í öllu falli hefur ekki þótt ástæða til að gera hana aðgengilega á heimasíðu fasteignaþróunarfélagsins Betri samgangna ohf (Bs ohf.).

Áætlaður kostnaðarauki er nú þegar 50 milljarðar og trúið mér lesendur góðir, við erum rétt að byrja.

15 þúsund milljóna hækkun

Eitt atriði þótti mér sérstaklega áhugavert, það var þrefalt heljarstökk sem kostnaður við framkvæmdir á Sæbraut hefur tekið frá því samningurinn var undirritaður. Kostnaðurinn var upphaflega áætlaður 2,7 milljarðar, en nú er slegið á 17,7 milljarða. Lausnin hefur því hækkað í verði um fimmtán þúsund milljónir!

Framkvæmdastjóri Bs ohf. reyndi að skýra kostnaðarspreninguna með þeim hætti að „horfið hafi verð frá hugmyndum um mislæg gatnamót og að nú sé gengið út frá því að Sæbraut verði lögð í stokk. Það sé allt önnur framkvæmd og eftir atvikum mun dýrari en sú fyrri.“

Þá er nauðsynlegt að spyrja: Er þessu félagi, Betri samgöngum ohf., í sjálfsvald sett að ákvarða breytingar á framkvæmdum sem undir samninginn falla, sem kalla fram 550% kostnaðarhækkun á einstökum verklið?

Til að fá svar við þeirri spurningu lá beinast við að leita til innviðaráðherrans og það gerði ég einmitt í fyrirspurnatíma Alþingis á dögunum. Svarið var kúnstugt. Ráðherrann sagði að þessar breytingar – sem nema 15.000 milljóna hækkun - yrðu ræddar innan félagsins, þ.e. Betri samgangna ohf. og í sérstökum stýrihópi þar sem sæti eiga fulltrúar sveitarfélaga sem að samningnum koma. Það er magnað í besta falli þar sem framlag sveitarfélaganna til framkvæmdanna er varla upp í nös á ketti þegar litið er til þess fjárausturs sem á sér stað í þessum verkefnum sem tengjast Borgarlínunni. Ekki stóð til af hálfu ráðherrans að ræða þessa sturluðu viðbót í fjárframlagi ríkisins á Alþingi og óvíst hvort fjármálaráðherrann hafi vitað af þessum breytingum áður en einhverjir menn úti í bæ ákváðu hversu hár tékkinn yrði.

Ég notaði svo ferðina og bætti tveimur spurningum við til ráðherrans; annars vegar spurði ég hann hvort hann hefði nokkuð séð rekstraráætlun fyrir Borgarlínuna. Hann svaraði því í engu og því varla hægt að álykta öðruvísi en svo að slík frumforsenda liggi enn ekki fyrir – annars væri svarið auðsótt.

Nú bætist við fullkomið stjórnleysi í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins, þar sem hæst ber Borgarlínuhluti samgöngusáttmálans.

Hins vegar spurði ég ráðherrann hver fengi tekjur af lóðasölu ofan á fyrirhuguðum stokkum, í því rými sem þar mun væntanlega skapast. Ráðherrann svaraði því og svarið var einfalt: „Það er bara ekki komið svo langt“. Samtalið milli samningsaðila er semsagt ekki komið svo langt. En það er komið svo langt að horft er til þess að byggja stokka á þremur stöðum á höfuðborgarsvæðinu fyrir 54 milljarða (tala sem á eftir að hækka) án þess að menn hafi séð ástæðu til að ræða hver hefði tekjur af því landi sem þar kann að skapast. Hvaða rugl er þetta? Í öllu falli segir mér svo hugur að borgarstjóri ætli sér að koma klónum í þau rými og þær krónur sem af þeim hljótast. Eða kannski ákveða þeir það bara þarna hjá Betri samgöngum.

Fullkomið stjórnleysi

Mér hefur verið tíðrætt um stjórnleysi ríkisstjórnarinnar undanfarið. Algert stjórnleysi í útlendingamálum. Stjórnleysi í ríkisfjármálum, þar sem hvert Íslandsmetið í útgjaldaaukningu er slegið af öðru og nú bætist við fullkomið stjórnleysi í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins, þar sem hæst ber Borgarlínuhluti samgöngusáttmálans.

Væri ekki fyrsti tíminn bestur að horfast einfaldlega í augu við þær ógöngur og öngstræti sem þessar framkvæmdir Borgarlínunnar eru komnar í og leita annarra leiða og þá mögulega leiða sem raunverulega leysa samgönguvanda höfuðborgarsvæðisins því ekki gerir Borgarlínan það. Því miður er innviðaráðherra ekki líklegur til árangurs þar frekar en annars staðar. Hann er upptekinn við frasavinnslu með almannatenglinum.

Er þá ekki bara best að hoppa af vagninum áður en hann lendir úti í skurði?

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út fimmtudaginn 2. febrúar 2023.