Uppsafnaður halli ríkissjóðs árin 2020–2027 er áætlaður rúmlega 826 milljarðar króna á verðlagi hvers árs, núvirðiði er því enn hærra.

Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn minni á Alþingi en ég vildi sjá það svart á hvítu hvert útgjaldastjórnleysið væri í raun hjá ríkisstjórninni. Það hefði nefnilega enginn trúað mér ef ég hefði farið fram með mitt eigið mat hvað þetta varðar – svo ótrúlegar eru tölurnar.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs er semsagt að takast að tjóna ríkissjóð um svipaða upphæð og ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tókst að draga í bú 2013-2016. Það er magnað.

Staðan er stjórnlaus

Ef einhver taldi stöðuna ekkert svo slæma og að Sjálfstæðisflokkurinn væri að stemma stigu við útgjaldafylleríinu þá vona ég að þetta varpi ljósi á að svo er ekki. Staðan er stjórnlaus.

Og ef einhver taldi þessa útgjaldaaukninguna stafa af heimsfaraldri Covid-19 og þeim sturluðu útgjöldum ríkissjóðs sem ráðist var í þá til að mæta lokunum og takmörkunum á allt atvinnulíf hér á landi þá stenst það enga skoðun. Því þegar heimsfaraldrinum lauk þá slógu menn nýtt gólf undir ríkisútgjöldin í stað þess að draga saman seglin, lækka útgjöldin og lækka skuldir. Nei, kraninn úr ríkissjóði fékk að ganga á fullum styrk að heimsfaraldri loknum.

Maður hlýtur að spyrja sig hvort Bjarni hafi kastað inn handklæðinu þegar kemur að hlutverki hans sem samviskusama gjaldkera ríkisins.

Ríkisstjórn Bjarna, Katrínar og Sigurðar Inga býður okkur nú upp á viðvarandi halla á ríkisrekstri til ársins 2027 – eða inn á mitt tímabil næstu ríkisstjórnar. Maður hlýtur að spyrja sig hvort Bjarni hafi kastað inn handklæðinu þegar kemur að hlutverki hans sem samviskusama gjaldkera ríkisins sem einu sinni passaði vel upp á reksturinn.

Þessi fullkomna uppgjöf gagnvart verkefninu, að draga saman seglin í ríkisútgjöldum, kallar auðvitað á það að Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, skili inn lyklunum – ásamt öllum sínum ráðherrum sem þykir ekki leiðinlegt að dreifa fé skattgreiðenda í ómikilvæg verkefni linnulaust.

Á meðan þetta er staða ríkisfjármálanna hefur ríkisstjórnin það svo helst fyrir stafni að veikja stoðir grunnatvinnuvega, eins og sjávarútvegs og landbúnaðar. Forgangsraða orkuframleiðslu til orkuskipta, sem takmarkar vöxt og viðgang nýrra iðnfyrirtækja. Hún heldur áfram að djöflast í landeigendum til að hafa af þeim hluta jarða sinna.

Samþykkja gálgafrest

Ríkisstjórnin setur millilandaflug í uppnám með því að samþykkja gálgafrest til tveggja ára og gefa eftir þá stöðu sem við þó höfðum í sameiginlegu EES nefndinni gagnvart flugsköttum ESB og svo mætti áfram telja. Verðmætasköpun virðist þeim lítt að skapi. Og jú, svo hækka þau skatta á fyrirtæki og innleiða reglur þar sem 20 manna hópur kontórista í Brussel fær að ákveða hvað sé boðleg fjárfesting hér á landi og hvað ekki.

En þegar öllu er á botninn hvolft, þá eyða ráðherrarnir bara miklu meiru en fyrirtæki landsins þola að standa undir til lengri tíma. Því verður að breyta, en það verður einfaldlega ekki gert með núverandi ríkisstjórn.

Höfundur er formaður þingflokks Miðflokksins.