Hrafnarnir hafa fylgst furðu lostnir með framgöngu meirihlutans í kjölfar þess að fjárhagsáætlun borgarinnar var lögð fram í síðustu viku.

Hrafnarnir hafa fylgst furðu lostnir með framgöngu meirihlutans í kjölfar þess að fjárhagsáætlun borgarinnar var lögð fram í síðustu viku.

Borgarfulltrúarnir virðast telja að það sé nóg að stinga putta upp í vindinn og leggja fram fjármálaáætlun til að leysa djúpstæðan fjárhagsvanda Reykjavíkur. Þannig segir Pawel Bartozek á Vísi í síðustu viku: „Borgin verður nú rekin með afgangi, ári fyrr en áætlað var. Afgangur á borgarsjóði árið 2024 verður 590 milljónir.“  Staðreynd málsins er sú að fjárhagsáætlanir borgarinnar hafa skeikað um marga milljarða á ári hverju undanfarin ár og engar líkur á að nýjasta fjárhagsáætlunin standist og að borgin verði rekin með afgangi á næsta ári.

Rekstur A-hlutans hangir á bláþræði og rétt svo lafir vegna þess að borgin er að mergsjúga arðgreiðslur úr fyrirtækjum borgarinnar. Þau fyrirtæki standa ekki undir slíkum greiðslum. Samstæðan stendur afar illa í samanburði við önnur sveitarfélög. Þetta vita allir lesendur fjölmiðla sem fjalla raunverulega með „faglegum hætti“ um fjármál borgarinnar. Hrafnarnir telja að borgarfulltrúar á borð við Dóru Björt Guðjónsdóttir hefðu gott af því að kynna sér þau skrif í stað þess að hóta miðlunum sem birta þau.

Huginn og Muninn er einn af ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 15. nóvember 2023.

Árétting: Í upphaflegri útgáfu sögðust hrafnarnir telja bæði Pawel og Dóru hafa gott af því að kynna sér skrif fjölmiðla um borgina betur í stað þess að hóta þeim. Hið rétta er að Pawel hefur aldrei svo hrafnarnir viti talað með þeim hætti og hefur nafn hans því verið fjarlægt úr umræddri setningu.