Því er stundum haldið fram að stærstu fyrirtæki landsins hafi snúið baki við krónunni

Er þetta ágætt dæmi um málefnafátækt þeirra sem tala fyrir upptöku annars gjaldmiðils. Það að íslensk fyrirtæki geri í sumum tilfellum upp í erlendri mynt segir einfaldlega að þau séu í alþjóðlegri starfsemi og hefur ekkert með efnahagslegan veruleika á Íslandi að gera.

Í 8. grein ársreikningslaga segir:

Ársreikningaskrá veitir heimild til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli enda teljist hann vera starfrækslugjaldmiðill félagsins.

Starfrækslugjaldmiðill er sá gjaldmiðill sem vegur hlutfallslega mest í aðalefnahagsumhverfi félagsins. Aðalefnahagsumhverfið er þar sem félagið aðallega myndar og notar handbært fé. Við mat starfrækslugjaldmiðils skal litið til þess gjaldmiðils sem tekjur og gjöld af rekstrarhreyfingum eru ákvörðuð og greidd í enda sé það sá gjaldmiðill sem mest áhrif hefur á kostnaðarverð og söluverð vara og þjónustu félagsins, m.a. fyrir tilstilli samkeppnisafla, laga og reglna. Þá skal einnig litið til þeirra gjaldmiðla sem mestu varða við fjármögnun félagsins og varðveislu fjármuna þess.“

Það kann að einfalda rekstur útflutningsfyrirtækja sem selja vörur sínar á alþjóðamörkuðum að gera upp í annarri mynt. Það kann að vera skynsamlegt fyrir útgerðarfélag sem selur vörur sínar til meginlands Evrópu og rekstrarkostnaður á borð við olíukaup sveiflast með Bandaríkjadal og fjármagnskostnaður er að einhverju leyti í erlendum gjaldmiðli að gera upp í annarri mynt. Það jafnar út sumar sveiflur og kann auðvitað að skapa önnur vandamál á móti í reikningshaldinu.En þetta breytir engu fyrir reksturinn. Starfsmenn félagsins ganga ekki um með bólgin veski yfirfull af evruseðlum þó svo að breytt sé um uppgjörsmynt. Hinn efnahagslegi veruleiki er eftir sem áður hinn sami. Rétt eins og Reykjanesbrautin er jafn löng hvort sem hún er mæld í metrum eða fetum. Ströndin í Nauthólsvík myndi ekki fyllast í janúar þegar hitastigið sýndi 32 gráður á Fahrenheit-kvarðanum.

Það að fjöldi íslenskra fyrirtækja gerir upp í evrum eða annarri mynt segir fyrst og fremst þá sögu að hér á landi sé framsækið atvinnulíf og kröftug útflutningsstarfsemi. Það segir okkur að sem betur fer býður íslenskt lagaumhverfi upp á framsetningu í evrum eða þá annarri mynt þegar það gefur gleggri mynd af rekstrarhreyfingum. Þessi fyrirtæki gætu þannig séð gert upp í ærgildum ef út í það er farið.

Það að benda á að einhver fyrirtæki séu með evru sem starfsrækslugjaldmiðil og setja fram sem röksemd fyrir því að Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu og taka upp evru er fjarstæðukennt. Þetta er í raun og veru eins og segja að það væri til marks um yfirburði og gæði íslensks lambakjöts ef einhverjum fyrirtækjum dytti í hug að gera upp í ærgildum frekar en krónum.

Uppgjör fyrirtækja í erlendum gjaldmiðlum er eðlilegur fylgifiskur alþjóðavæðingar og alþjóðaviðskipta í íslensku hagkerfi. Það var mikið framfaraspor þegar íslenskum fyrirtækjum var heimilað að nota annan starfrækslugjaldmiðil en krónur og eðlilegt að fyrirtæki sem hafi stóran hluta tekna sinna og fjármögnun í annarri mynt. Allt stuðlar þetta að frekari alþjóðavæðingu atvinnulífsins og eykur þrótt þess. En það að þessi þróun sé til marks um að það fyrirkomulag að reka sjálfstæða peningamálastefnu með verðbólgumarkmið sé gengið sér til húðar er mikil einföldun, svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Það er ekki gagnlegt fyrir umræðu um gjaldmiðlamál að halda slíku fram.

Uppgjörsmynt stærstu útflutningsfyrirtækja landsins felur ekki í sér nein skilaboð um að upptaka annars gjaldmiðils sé valkostur sem Íslendingar ættu alvarlega að íhuga.