Hrafnarnir rákust á forvitnilega tilkynningu á vef Alþingis á dögunum. Þar segir að kostnaður þingmanna vegna alþjóðastarfs sem greiddur er af öðrum stofnunum en Alþingi birtist nú undir hagsmunaskráningu viðkomandi þingmanns en ekki undir laun og kostnaðargreiðslur þingmanna.

Hrafnarnir gruna að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata hafi óskað eftir þessari breytingu enda mikið í mun að sýna að hún sé ekki aðeins baggi á íslenska skattgreiðendur.  Hrafnarnir bentu jú á dögunum að kostnaður þingsins vegna ferðalaga hennar frá árinu 2016 nam 13 milljónum króna.

Eftir breytinguna sést að íslenskir skattgreiðendur hafa einungis þurft að borga 12,4 milljónir vegna ferðalaga þingmanna og evrópskir skattgreiðendur rest. Annars stefnir Þórhildur að ná fram glæsilegum árangri á sviði öflunar dagpeninga á kostnað ríkisins en það sem af er ári tæplega 1,8 milljón og stefnir ótrauð á að rífa tveggja milljón króna múrinn.

Huginn og Muninn er einn af ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 15. nóvember 2023.