Halla Hrund Logadóttir hefur eins og aðrir forsetaframbjóðendur verið á ferð og flugi undanfarnar vikur. Meðan aðrir frambjóðendur hafa látið sér nægja að ferðast milli landshluta innanlands gekk Halla Hrund skrefinu lengra og ferðaðist til Íslendinganýlendunnar Kaupmannahafnar.

Helsta tilkall Höllu Hrundar til að gegna embætti forseta Íslands er að hún hafi ólíkt flestum landsmönnum alist upp í blokkaríbúð í Árbænum en síðar flutt með foreldrum sínum í einbýlishús. Þar að auki var hún í sveit á sumrin.

Þegar hrafnarnir héldu að hún gæti ekki orðið alþýðlegri kom það úr kafinu í Kaupmannahafnar-heimsókninni að hún hefur einnig steikt hamborgara á veitingastað Burger King á Ráðhústorginu þar í borg. Hröfnunum er ókunnugt um hvort aðrir forsetar lýðveldisins hafi gert hið sama.

Eftir langar og strangar vaktir við grillið á Burger King snæddi Halla Hrund svo iðulega kvöldverð á McDonald’s – sem er írskur veitingastaður steinsnar frá Ráðhústorginu.

Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.