Óðinn fjallaði um innflytjendur í Danmörku í þremur hlutum. Hér birtist þriðji hlutinn í heild sinni sem birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 13. mars.
Hér er fyrsta umfjöllunin.
Hér er önnur umfjöllunin.
Ályktanir af dönskum gögnum um innflytjendur
Óðinn hefur síðustu tvær vikur fjallað um gögn dönsku hagstofunnar og danska fjármálaráðuneytis eftir hópum innflytjenda og einstaka upprunalöndum þeirra.
Ánægja hefur verið með umfjöllunina meðal lesenda Viðskiptablaðsins og margir spurt hvers vegna þessar upplýsingar hafi ekki verið birtar miklu mun fyrr í ljósi gríðarlegs straums innflytjenda til landsins.
***
Óðinn vissi fyrir fram að þessar upplýsingar myndu fara fyrir brjóstið litlum minnihluta landsmanna.
Engin, ekki ein manneskja, hefur getað gagnrýnt sjálfar tölurnar. Þegar skýrslur dönsku hagstofunnar eru skoðaðar sést að nákvæmni þeirra eykst með árunum og ekki nokkur vafi á því að þær gefa glögga mynd af stöðu einstakra upprunalanda og hópa innflytjenda í landinu.
Gagnrýnin hefur heldur ekki snúist um túlkun eða skoðanir Óðins á innflytjendamálum enda ekki hægt þar sem Óðinn hefur eingöngu fjallað um tölulegar staðreyndir frá Danmörku. Sú litla gagnrýni sem umfjöllunin hefur fengið hefur í raun eingöngu verið á þá leið að ekki sé rétt að birta tölur um innflytjendamál.
***
Innflytjendur hafa gert Ísland betra
Lang flestir þeirra sem komið hafa til Íslands á umliðnum árum og áratugum hafa gert íslenskt þjóðlíf betra. Þeir hafa komið með sína menningu og gert Ísland að betra landi. Meginskýringin á því hve vel hefur tekist til er að stjórnvöld á hverjum tíma gættu þess að hingað kæmu ekki of margir í einu og að kerfið réði við verkefnið. Það er lykilatriði.
Málin voru í góðum farvegi allt þar til fyrir fáeinum árum þegar Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn tóku ákvörðun um að taka upp stefnu Vinstri grænna í málaflokknum. Þetta gerist á sama tíma og fyrrverandi formenn Samfylkingarinnar, Árni Páll Árnason, Oddný Harðardóttir og Logi Einarsson, sneru stefnu flokksins í málaflokknum og gagnrýndu systurflokk sinn í Danmörku, danska sósíalista.
Núverandi formaður Samfylkingarinnar, Kristrún Frostadóttir, benti þremenningunum, sem nánast gengu af Samfylkingunni dauðri, loks á að það gengi ekki upp að vera með opin landamæri og ætla á sama tíma að reka eitt besta velferðarkerfi veraldar. Með slíkri stefnu myndi þjóðarbúið fara lóðbeint á hausinn.
***
Ætlum við að læra af reynslu Dana?
Áhugavert er að skoða dönsku tölurnar út frá íslenskum raunveruleika og rýna í tölur yfir þá hópa, sem fjölmennastir eru hér. Þegar það er gert stendur upp úr sú staðreynd að þeir innflytjendur, sem fjölmennastir eru á Íslandi, eru gott fólk. Þeir eru álíka virkir á vinnumarkaði og Danir sjálfir og setjast ekki upp á bótakerfin. Það sem ekki skiptir minna máli er að glæpatíðni þeirra er í kringum meðaltal.
Danir hafa komist að þeirri niðurstöðu að það sé í raun aðeins einn hópur innflytjenda sem þeir ráði ekki við. Þetta er fólk sem kemur frá upprunalöndum, þar sem múslimar eru í meirihluta, svokölluðum MENAPT löndum (uppruni í Mið-Austurlöndum og Norður Afríku auk Pakistan og Tyrklands).
Skýringarnar eru eflaust flóknar og margar. En skipta þær máli? Hefur sönnunarbyrðin ekki snúist við eftir lestur dönsku skýrslnanna?
Er ekki komið að þeim, sem telja að íslensku landamærin eigi að vera opin fyrir fólki frá MENAPT löndunum, að útskýra fyrir okkur hinum sem óttumst og efumst, hvernig við getum staðið okkur betur að taka á móti fólki frá þessum löndum.
Hvernig við getum komið í veg fyrir að þessir hópar fremji þrisvar til fjórum sinnum fleiri glæpi en aðrir og hvernig hægt sé að koma í veg fyrir að meira en helmingur þeirra sé á bótum í stað þess að vera úti á vinnumarkaðnum. Til þess að draga þetta saman þá væri gott ef við fengjum útskýringu og lausn á því hvernig við getum komið í veg fyrir að þessir hópar kosti skattgreiðendur langtum meira en þeir greiða til hins opinbera á sinni lífstíð.
***
Mörður Árnason og Vilhjálmur Þorsteinsson
Mörður Árnason, fyrrum þingmaður Samfylkingarinnar og blaðamaður á Þjóðviljanum heitnum, er einn þeirra sem geri athugasemd við skrif Óðins. Hann segir í athugasemdum á Facebook:
Undarleg iðja á Viðskiptablaðinu. Pólverjar koma hingað til vinnu í fullum EES-rétti. Palestínumenn allajafna á flótta. Aldrei rætt um máð í greininni.
Þessi athugasemd Marðar er þó alveg hreint ágæt. Umfjöllunin byggir á dönskum tölum og það segir í skýrslum dönsku hagstofunnar, eins og Mörður hefði getað lesið um í Viðskiptablaðinu væri hann áskrifandi, að flestir Palestínumenn hafi komið til Danmerkur í kringum 1985.
Þeir hafa því haft næstum þrjá áratugi til að aðlagast dönsku þjóðlífi. En það hefur ekki tekist. Þvert á móti þá er önnur kynslóð innflytjenda í verri stöðu en forfeðurnir. Þeir brjóta mun meira af sér en enginn hópur innflytjenda brýtur meira af sér en afkomendur Palestínumanna. Óðinn spyr Mörð á móti. Hvernig getum við komið í veg fyrir að sama gerist á Íslandi?
***
Vilhjálmur Þorsteinsson, fjárfestir, fyrrum gjaldkeri Samfylkingarinnar og stjórnarmaður í Kjarnanum, setti einnig fram athugasemd á Facebook.
Merkilegt þegar Viðskiptablaðið, boðberi einkaframtaks og atvinnulífs, kýs að nota afkomu ríkissjóðs af fólki sem mælikvarða á framlag þess til hagkerfisins og samfélagsins. Ég hefði haldið að sjálf störf fólks, úti á mörkinni og í atvinnulífinu, væru meginframlagið og verðgildi gagnvart hagkerfinu. En þar fyrir utan er lifað mannslíf ætíð mikils virði sem slíkt og í sjálfu sér; nokkuð sem maður hefði líka haldið að einstaklingshyggjufólk tæki undir.
Þetta er alrangt. Óðinn var aðeins að greina frá því hvað kemur fram í dönskum skýrslum þar sem fram kemur að einstakir hópar innflytjenda lifa á kerfinu alla ævi. Annað var það nú ekki.
Það er hins vegar svo að ef hér á að vera velferðarkerfi, kostað af skattgreiðendum, þá eiga allir þeir sem njóta þess að taka þátt í að greiða fyrir það. Ella hrynur það til grunna. Ef fötlun, sjúkleiki eða annað kemur í veg fyrir þátttökuna þá er það auðvitað allt annað mál.
Annars er það óhjákvæmilegur fylgifiskur þess, eins og Vilhjálmur þekkir enda líklega ríkasti vinstrimaður landsins á eftir Kára Stefánssyni, að ef vel gengur þá greiðir maður háa skatta.
Þeir einir eru undantekning sem ákveða að greiða skatta í þeim löndum þar sem þeir eru lægri. Til dæmis Lúxemborg og Tortóla. Fæstir þeirra fara þó niður á Austurvöll og mótmæla félögum í skattaparadísum, eigi þeir sjálfir slík kompaní.
Enn færri skammast sín svo fyrir auðævin að þeir aka sérstaklega heim til sín á blæjuútgáfunni af dýrasta sportbíl þýska bílaframleiðandans BMW, sækja hjólið og fara á fund hjá vinstriflokknum sínum. En Óðinn hefur þó ekkert við það að athuga. Hann styður fjölbreytileikann.
***
Palestínumennirnir
Óðinn gerir sér grein fyrir því, líkt og allur heimurinn, að staðan fyrir botni Miðjarðarhafs er skelfileg. Jafnvel þótt ekki nokkurt mark sé takandi á tölum frá heilbrigðisyfirvöldum hryðjuverkasamtakanna Hamas á Gaza, þá hefur staða fólks í Palestínu aldrei verið verri.
Illmennin í Hamas vissu auðvitað að með morðunum, nauðgununum, limlestingum og gíslatökunum þann 7. október yrði svar Ísraela nákvæmlega það sem varð.
Auðvitað er vonlaust fyrir Íslendinga að setja sig í spor íbúa á Gasa. Það er samt skelfileg tilhugsun að þrátt fyrir alla hörmungarnar á Gasa í kjölfar hryðjuverka Hamas er meirihluti Palestínumanna hlynntur hryðjuverkunum þann 7. október. Um 82% Palestínumanna á Vesturbakkanum telja rétt af Hamas að hafa framið hryðjuverkin og 57% þeirra sem búa á Gasa eru sömu skoðunar.
Óðinn hefur ekki upplýsingar um hvort sambærileg könnun hafi verið gerð meðal þeirra Palestínumanna sem hafa komið til Íslands, en varla eru niðurstöðurnar einhverjar allt aðrar. Eða hvað?
***
Samkvæmt íslensku hagstofunni voru 335 Palestínumenn á Íslandi þann 1. janúar 2023. Síðan þá hafa eflaust 150-200 bæst í hópinn.
Það sem kemur Óðni mest á óvart þegar aldurs- og kynjaskiptin er skoðuð að 45% þeirra Palestínumanna sem voru hér í byrjun árs 2023 voru karlmenn á aldrinum 25-64 ára. Þetta er sá hópur sem brýtur mest af sér í Danmörku. Aðeins 12% Palestínumanna hér eru konur á sama aldri.
Fyrst við erum að bjóða Palestínumönnum til Íslands, af hverju veitum við ekki þeim sem minnst mega sín skjól, konum og börnum?
***
3.121% aukning frá 2012
Öllum þeim, sem hafa sæmilega grunnþekkingu í ríkisfjármálum, er ljóst að sú stefna sem núverandi ríkisstjórnin hefur rekið í útlendingamálum er ósjálfbær. Beinn kostnaður skattgreiðenda af útlendingamálum er í dag 20,1 milljarður króna á ári. Hann nam 398 milljónum króna árið 2012. Það eru 624 m.kr. á verðlagi í dag. Aukningin frá árinu 2012 nemur því 3.121% sem er 32-földun.
En þessir 20 milljarðar eru langt frá því að vera allur kostnaður vegna útlendingamála. Óbeinn, en þó þráðbeinn, kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu, leikskóla, grunnskóla og félagsþjónustu er ekki meðtalinn. Svo ekki sé nefndur kostnaður við réttarvörslukerfið, lögreglu, dómstóla og fangelsi.
Einnig bætist við kostnaður vegna þeirra sem ekki fá þjónustu hjá hinu opinbera vegna álags og geta því ekki sinnt störfum sínum. Þetta á til dæmis við heilbrigðiskerfið, þar sem biðlistar hafa aldrei verið lengri. Óðni kæmi ekki óvart ef heildarkostnaðurinn næmi 50-60 milljörðum króna á ári.
Allur kostnaður vegna útlendingamála frá árinu 2019 hefur verið tekinn að láni. Því má bæta vaxtakostnaði við fjárhæðina. Í dag er hann ekki minni en 5 milljarðar króna á ársgrundvelli.
***
Sofandi stjórnarflokkar
Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eru algjörlega gagnslausir. Ríkisstjórnin ákvað af einhverjum óskiljanlegum ástæðum að opna landið fyrir fólki frá Venesúela, frekar en til dæmis frá Kólumbíu, Bandaríkjunum eða Kína. Er ekki tímabært að útskýra það fyrir kjósendum?
Við sjáum margar Evrópuþjóðir þessa dagana, líkt og Þjóðverja, vinsa Hamasliða út áður en Palestínumenn eru fluttir til landanna.
Er Bjarni Benediktsson viss um að í hópi þeirra sem komu með þotunni til landsins á dögunum hafi ekki verið Hamas-liðar?
Könnuðum við málið eins og Þjóðverjarnir?