Fjársýsludagurinn var haldinn hátíðlegur á dögunum – eða ársfundur ríka og fallega fólksins eins og hrafnarnir kalla viðburðinn.

Fjársýsludagurinn var haldinn hátíðlegur á dögunum – eða ársfundur ríka og fallega fólksins eins og hrafnarnir kalla viðburðinn.

Venju samkvæmt þegar ríkið er annars vegar var stjanað við ráðstefnugesti með veglegum veitingum og guða veigum. Ráðstefnan, sem náði aðeins yfir einn vinnudag, stóð frá morgni til kvölds enda þétt skipuð dagskrá erinda þar sem farið var um víðan völl.

Erindin voru hvert öðru skemmtilegra en að mati hrafnanna stóðu tvö þeirra þó öðrum framar. Annars vegar var um að ræða erindi fjársýslustjórans sjálfs, Ingþórs Karls Eiríkssonar, sem fjallaði um áskoranir sem aðhaldskröfur fjárlaga hafa í för með sér. Hrafnarnir hafa mikla samúð með Fjársýslustjóranum enda gera fjárlögin aðeins ráð fyrir 46 milljarða halla á rekstri ríkissjóðs á næsta ári og því ótækt að gerðar séu aðhaldskröfur á ríkisstofnanir.

Hrafnarnir vilja hrósa skipuleggjendum ráðstefnunnar fyrir að geyma besta erindið þar til síðast er Guðmundur Jóhannsson, upplýsingafulltrúi Símans, steig á stokk og svaraði þeirri áleitnu spurningu um hvort gervigreind sé að fara breyta heiminum.

Hrafnarnir geta ekki beðið eftir næsta Fjársýsludegi.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.