Vindorka hefur verið mikið til umræðu undanfarin misseri.

Er sú umræða til marks um í hversu miklar ógöngur Íslendingar eru komnir með orkumál sín. Besta leið Íslendinga til þess að afla orku er með byggingu vatnsaflsvirkjana. Þar sem ekkert þokast í þeim efnum, meðal annars vegna flókins og tímafreks kerfis leyfisveitinga, hafa menn horft til uppbyggingar vindorkuvera. Með öðrum orðum eru menn að horfa til verri og ótryggari orkuöflunarkosts og raunveruleg hætta er á að hér á landi byggist upp óhóflegt magn af vindmyllum meðan vatnsaflið er ekki virkjað.

Þrátt fyrir að þessi vindmylluáform séu skammt á veg komin eru stjórnmálamenn á vinstri vængnum strax farnir að tala fyrir því að skattleggja þurfi þessa orkuöflun sérstaklega. Þannig hafa þingmennirnir Orri Páll Jóhannsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Jódís Skúladóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Bjarni Jónsson úr Vinstri grænum lagt fram þingsályktunartillögu um að Alþingi feli umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að leggja fram frumvarp til laga sem tryggi hlut þjóðarinnar í arðinum af nýtingu vindorku til raforkuframleiðslu með innheimtu auðlindagjalds. Vindur verði skilgreindur í lögum sem sameiginleg auðlind í eigu ríkisins.

Í þingsályktunartillögunni segir:

Flutningsmenn þessarar tillögu telja mikilvægt að boðuð lagasetning um nýtingu vindorku hérlendis undirstriki þá meginreglu að vindurinn sé auðlind í sameign þjóðarinnar og leyfi til nýtingar á honum tryggi íslensku þjóðinni beina og sýnilega hlutdeild í afkomu vegna
nýtingar til framleiðslu raforku.“

Þá hafa þingmenn Samfylkingarinnar talað á sömu nótum. Það segir meira um en mörg orð um pólitískt erindi þessara þingmanna að þeir eru farnir að hugsa um ríkisvæðingu og skattlagningu á iðnaði sem hefur ekki að neinu viti tekið til starfa og er ekki farinn að skapa nein teljanleg verðmæti enn sem komið er.

Þá er vert að staldra við þá hugmynd að vindurinn sé sameign þjóðarinnar eins og það er orðað í þingsályktunartillögunni. Er það svo? Hugtakið sameign þjóðarinnar getur haft einhverja þýðingu þegar kemur að auðlind sem er takmörkuð á borð við fiskistofna en það á ekki um vindinn. Þeir sem hafa efasemdir um þá fullyrðingu geta gert sér ferð til Keflavíkur og kynnt sér staðreyndir málsins.

Sá sem nýtir vindorkuna er ekki að skerða tækifæri annarra til að gera slíkt hið sama. Hafi menn virkilega sannfæringu fyrir að vindurinn sé auðlind í eigu ríkisins og hvers notkun eigi að skattleggja sérstaklega verða þeir að svara hvers vegna skreiðarverkendur og seglskútueigendur, svo einhver dæmi séu tekin, hafa sloppið við slíkan skatt. Hvernig getur vindurinn sem blæs á landi sem er í einkaeigu verið ríkiseign á meðan regnvatnið sem fellur á sama land er háð einkaeignarrétti.

Sem fyrr segir standa Íslendingar frammi fyrir betri kostum í orkuöflun en vindorkuverum. Eigi að síður þarf eitt ekki að útiloka annað í þessum efnum. Eftirspurnin eftir orku fer að sjálfsögðu vaxandi með mannfjölgun og vexti hagkerfisins og eftir því sem orkuskiptum fleygir fram. Sjálfsagt þurfa Íslendingar að horfa til allra raunhæfra kosta til að mæta þeirri eftirspurn.

Það skýtur því skökku við að helsta framlag stjórnmálamanna til þeirrar þróunar sé að auka skattlagningu á orkuöflun og vinna þar með gegn markmiðum orkuskipta. Jafnframt orkar það tvímælis að skattleggja eina framleiðsluleið á grænni orku umfram aðra.

Þessi furðulega hugmynd um að vindurinn – hvort sem um er að ræða meðbyr eða mótvind – sé sameign þjóðarinnar sem auðvitað þýðir í raun ríkiseign afhjúpar hversu takmarkaðan skilning sumir stjórnmálamenn hafa á orkuöflun og verðmætasköpun. Það verður að teljast mikið áhyggjuefni ef slík sjónarmið verða ráðandi á Alþingi á komandi árum.

Leiðarinn birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 20. desember 2023.